Innflutningur gæludýrafóðurs frá gin- og klaufaveikisvæðum

Mánudaginn 26. mars 2001, kl. 15:57:47 (5952)

2001-03-26 15:57:47# 126. lþ. 97.1 fundur 412#B innflutningur gæludýrafóðurs frá gin- og klaufaveikisvæðum# (óundirbúin fsp.), KPál
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 126. lþ.

[15:57]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Ég get tekið undir það að vissu marki að óhætt sé að treysta vísindunum en ekki er sama við hvaða vísindamenn er talað um þessi mál. Sumir segja að það sé allt í lagi að flytja inn gæludýrafóður sem inniheldur svína- og nautakjöt frá Englandi ef það er hitað í 130 gráður eða svo. Aðrir segja að engin leið sé að taka mark á slíkum yfirlýsingum einhverra dýralækna úti í Englandi því að ljóst sé að ef smáslys hendir og ekki er farið upp í 130 gráður heldur í 90 gráður og þetta kjöt inniheldur gin- og klaufaveikivírus og er flutt hingað til landsins, þá er bara slagurinn tapaður.

Mér finnst, herra forseti, að ekki sé tekið á þessu með þeirri alvöru sem mér finnst að eigi að gera í svona máli. Ég talaði um þennan sérstaka innflutning síðast þegar við ræddum þetta mál á hv. Alþingi og ég hef þar að auki rætt við yfirdýralækni og aðra, hvort ekki sé ástæða til að grípa þarna verulega strangar inn í en gert hefur verið. Það hefur ekki verið gert og mér finnst það sorglegt.