Viðskiptahalli og skýrsla Þjóðhagsstofnunar um þjóðarbúskapinn

Mánudaginn 26. mars 2001, kl. 16:12:57 (5958)

2001-03-26 16:12:57# 126. lþ. 97.94 fundur 419#B viðskiptahalli og skýrsla Þjóðhagsstofnunar um þjóðarbúskapinn# (umræður utan dagskrár), SJS
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 126. lþ.

[16:12]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Skýrsla Þjóðhagsstofnunar staðfestir að efnahagshorfur eru óvissar. Við höfum búið við langt hagvaxtarskeið eins og kunnugt er. Hér er næg atvinna og það eru þokkalegar horfur áfram að því leyti.

Veikleikinn er hins vegar gríðarlegur viðskiptahalli sem ekki er lát á að talið er, þ.e. samkvæmt spám, og tilheyrandi skuldasöfnun erlendis. Hrein staða þjóðarbúsins gagnvart útlöndum fer nú versnandi. Skuldir aukast mun meira en inneignir og vaxtakostnaður af vaxandi erlendri skuldabyrði vex hratt eins og sjá má á því að viðskiptahalli er áætlaður meiri á þessu ári en á hinu síðasta þrátt fyrir meiri vöxt úflutningstekna en innflutnings. Það sem skýrir muninn er stóraukin vaxtabyrði af vaxandi erlendum skuldum.

Ummæli Þjóðhagsstofnunar um lausatök og andvaraleysi í hagstjórn á árunum 1998--1999 eru athyglisverð. Þau hafa gildi nú vegna þess að skynsamlegar aðgerðir til þess að vinna sig út úr vandanum og til lausnar hljóta að taka mið af þeim kerfisbundnu mistökum eða keðjumistökum sem voru þá gerð. Þær aðgerðir hljóta að lúta að því að auka innlenda verðmætasköpun, auka útflutningstekjur og efla sparnað. Allar þessar aðgerðir verður að ráðast í af yfirvegun og ekki tjóar að lemja höfðinu við steininn og neita að horfast í augu við að viðsjárverðar aðstæður eru uppi núna í þjóðarbúskap okkar.

Að lokum, herra forseti, vil ég gagnrýna að hæstv. forsrh. skuli opinberlega hafa fundið að orðalagi í skýrslu Þjóðhagsstofnunar. Það fer illa saman við að ræða um mikilvægi þess að þessar stofnanir séu sjálfstæðar og óháðar. Það væri fróðlegt að spyrja hæstv. forsrh. hvort e.t.v. standi til að gefa út leiðbeiningar um viðeigandi orðalag undirstofnana forsrn.