Viðskiptahalli og skýrsla Þjóðhagsstofnunar um þjóðarbúskapinn

Mánudaginn 26. mars 2001, kl. 16:15:21 (5959)

2001-03-26 16:15:21# 126. lþ. 97.94 fundur 419#B viðskiptahalli og skýrsla Þjóðhagsstofnunar um þjóðarbúskapinn# (umræður utan dagskrár), JónK
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 126. lþ.

[16:15]

Jón Kristjánsson:

Herra forseti. Tilefni þessarar umræðu er spá Þjóðhagsstofnunar um efnahagshorfur næstu ára. Sú spá er jákvæð í flestum veigamestu greinum en eigi að síður er spáð miklum áframhaldandi viðskiptahalla, sem eru 72 milljarðar samkvæmt spá á yfirstandandi ári. Auðvitað þurfum við að hafa áhyggjur af slíkum viðskiptahalla. Hv. 7. þm. Reykv. tekur undir ráð Þjóðhagsstofnunar í þessu sambandi, að grípa þurfi til réttra aðgerða, eins og hann orðar það, og auka vægi ríkisfjármála í hagstjórn. Það er eitt af þeim ráðum sem hv. ræðumaður taldi upp.

Ég er sammála því að vissulega þarf að huga að því að stjórn ríkisfjármála nýtist í hagstjórn til að draga úr þenslu. Ég mun kalla eftir ráðum, hvar menn vilji grípa til aðgerða á þeim vettvangi. Það þýðir ekkert að tala um einhverja tugi milljóna í því sambandi. Það verður að auka afganginn á ríkissjóði um einhverja milljarða ef þetta á að virka sem hagstjórnartæki. Vissulega munum við kalla eftir því og tillögum stjórnarandstöðunnar hvar á að taka þessa milljarða til að þeir hrífi.

Ég tek undir að auka þarf þjóðhagslegan sparnað og auka útflutningstekjur. Ég tel að við höfum verið að vinna í þeim anda að auka útflutningstekjurnar og nauðsynlegt er að svo verði áfram. Og það er athyglisvert að heyra þær yfirlýsingar sem ganga um það hér.