Viðskiptahalli og skýrsla Þjóðhagsstofnunar um þjóðarbúskapinn

Mánudaginn 26. mars 2001, kl. 16:34:52 (5967)

2001-03-26 16:34:52# 126. lþ. 97.94 fundur 419#B viðskiptahalli og skýrsla Þjóðhagsstofnunar um þjóðarbúskapinn# (umræður utan dagskrár), forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 126. lþ.

[16:34]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Ég varð dálítið hissa á því að hv. síðasti ræðumaður skyldi taka upp áskorun Jóns Kristjánssonar með þeim hætti sem hann gerði vegna þess að Samfylkingin flutti við fjárlagagerðina tillögur til stóraukinna útgjalda á ríkisútgjöldunum (Gripið fram í.) og síðan sýndu þeir tekjur á móti. Hvaða tekjur á móti skyldu þær hafa verið? Það eru þær sem eru aðhlátursefni alla tíð þegar slíkar tekjur eru settar fram, betri skattheimta eða virkari skattheimta eða meira út úr skattheimtunni, var sagt. Þetta er dæmigerð tillaga sem menn koma þegar þeir hafa engar tillögur. Í annan stað auðlindagjald, þó viðkomandi menn hefðu sjálfir átt fulltrúa í auðlindanefnd og þeir vissu vel að á árinu 2001 yrði ekki tekið neitt auðlindagjald af sjávarútvegi. Það vissu þeir nákvæmlega. Þetta voru því algjörlega marklausar tekjutillögur. (Gripið fram í.) Samt komu þessir menn og sögðust hafa lagt sitt af mörkum til þess að draga úr útgjöldum. Þeir lögðu til að hækka útgjöldin stórlega og komu með engar raunhæfar tekjur á móti.

Svo vitna menn í Þjóðhagsstofnun. Ég tek eftir því að menn eru afskaplega sárir. Það má ekki orðinu halla á ríkisstofnanir þá koma menn hlaupandi hér, það má ekki einu sinni finna að orðalagi þeirra, þá koma menn hlaupandi eins og þetta séu heilagar kýr. Auðvitað er sjálfsagt að finna að orðalagi. Það er til marks um sjálfstæði þessara stofnana. Það er ekki fundið að orðalagi þeirra fyrir fram. Þeim er frjálst að prenta hvað sem er fyrir fram. En það felst ekki í því að menn geti ekki gert athugasemdir eftir á, eða hvað?

Síðan segja menn líka og menn taka upp úr skýrslu Þjóðhagsstofnunar og tala mikið um að aðhaldsstig hagstjórnar hafi ekki verið nægilegt á tilteknum árum, tveimur, þremur árum. ,,Aðhaldsstig hagstjórnar`` étur hver eftir öðrum. Hvað er átt við með aðhaldsstigi hagstjórnar, hv. þm.? Hvað er átt við með því? Veit hann það? Það er átt við með því að hafa enn þá meiri afgang á ríkisfjármálunum, þ.e. ekki vera með útgjaldatillögur eins og hv. þm. var með. Í annan stað að stórauka vexti. Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir gerði harðar kröfur um að vextir yrðu stórlækkaðir. Þetta er það sem talað er um harðara aðhaldsstig hagstjórar svo menn viti hvað stendur á bak við orðin.