Viðskiptabankar og sparisjóðir

Mánudaginn 26. mars 2001, kl. 17:12:06 (5973)

2001-03-26 17:12:06# 126. lþ. 97.2 fundur 567. mál: #A viðskiptabankar og sparisjóðir# (breyting sparisjóðs í hlutafélag) frv., SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 126. lþ.

[17:12]

Svanfríður Jónasdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég sé ástæðu til að nefna það að breytt umhverfi kallar jafnan á ný svör. Ég set þá fram þá spurningu hvort óbreytt ástand sé yfirleitt valkostur í stöðunni í dag.

Það kom fram hjá hv. þm. að rekstur sparisjóðanna hafi gengið ævintýralega vel. Hann hafði áhyggjur af því að þeim mundi fækka á næstu árum ef það frv. yrði samþykkt sem hér liggur fyrir.

Nú hefur sparisjóðunum verið að fækka á undanförnum árum. Hver telur hv. þm. að sé ástæða þess? Þeim hefur verið að fækka nokkuð með samruna eða eftir öðrum leiðum, hafa lagst af, orðið að skúffu í einhverjum viðskiptabankanum. Hver var þá ástæða þess ef reksturinn gekk svona ævintýralega vel?

Í öðru lagi, af því hv. þm. leggur greinilega dálítið upp úr sjálfsákvörðunarrétti sparisjóðanna, þá er það spurning hvort hann telur ekki að það sé þá rétt mat hjá fulltrúum sparisjóðanna sem hafa lagt kapp á að fá möguleika og það er bara verið að tala um möguleika, það er ekki skylda sem felst í þessu frv. til þess að mæta aðstæðum á hverjum stað ef það mætti verða til þess að þeirra sparisjóður héldi stöðu sinni eða hefði áfram þá fótfestu sem hann hefur nú í því viðskiptaumhverfi sem hann hrærist í.