Viðskiptabankar og sparisjóðir

Mánudaginn 26. mars 2001, kl. 17:17:18 (5976)

2001-03-26 17:17:18# 126. lþ. 97.2 fundur 567. mál: #A viðskiptabankar og sparisjóðir# (breyting sparisjóðs í hlutafélag) frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 126. lþ.

[17:17]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Nú skil ég þetta betur. Hv. þm. var eiginlega nánast að lýsa því að hún hefði stundað hugsanalestur og það hefði verið andi og undirliggjandi hlutir í ræðu minni sem hefðu gert það að verkum að hv. þm. spurði eins og raun bar vitni, nánast gangandi út frá því að ræðumaður hefði lýst andstöðu við frv. (Gripið fram í.) því að afar erfitt var að skilja spurningar hv. þm. öðruvísi en þannig. Kannski hefur hv. þm. verið búin að ákveða að það ætti að vera þannig að ég kæmi hér upp og boðaði harða andstöðu við frv. og ekki náð að umorða athugasemdir sínar nægjanlega hratt í ljósi þess að svo var ekki í ræðu minni. Ég segi alveg eins og er að ég ætlast til að menn hlusti á það sem ég segi og ég tel að málflutningur minn hafi verið fullkomlega skýr og skiljanlegur og í þannig jafnvægi að ekki hafi þurft að misskilja það neitt hvaða viðhorfum ég var að lýsa til málsins.

Ég þekki ágætlega til lagaumhverfisins sem hér á hlut. Ég hef setið í efh.- og viðskn. þingsins líklega ein tíu ár samfellt og ekki margir hér inni sem hafa gert það lengur. Ég hef verið félagsmaður í sparisjóði í ein 25 ár og haft mikinn áhuga á rekstri þeirra og velferð þannig að ég tel mig þekkja alveg ágætlega til þeirra breyttu aðstæðna sem hv. þm. var að vísa í.