Viðskiptabankar og sparisjóðir

Mánudaginn 26. mars 2001, kl. 18:06:00 (5987)

2001-03-26 18:06:00# 126. lþ. 97.2 fundur 567. mál: #A viðskiptabankar og sparisjóðir# (breyting sparisjóðs í hlutafélag) frv., JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 126. lþ.

[18:06]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. talaði um fé án hirðis. Mér finnst það ekki lýsa alveg nákvæmlega því sem þarna er á ferðinni. Ég spyr að því, eigum við ekki heldur að líta þannig á að stofnfjáreigendur fái í hendur fé til varðveislu og verði hirðar án þess að eiga féð?

Síðan langar mig að spyrja hv. þm. sem hefur velt þessum málum mikið fyrir sér hvernig hann sjái fyrir sér stöðu þessara sparisjóða og gagnvart því að aðilar mundu vilja eignast þá. Þá þarf að ná samningi við þá sem stjórna sparisjóðunum um kaupin. Það er sem sagt hægt að kaupa sig inn í veisluna, finnst mér, kaupa sparisjóðina upp með samningi við fáa stofnfjáreigendur, samningi við stjórnir sparisjóðanna og í gegnum þetta. Ég spyr: Er hugsanlegt að menn séu að verðleggja eigið fé sem þeir eiga ekki inni í þessari sölu, þ.e. ráðin yfir því eigin fé sem er í öllum sparisjóðnum?

Síðan langar mig að spyrja hv. þm. af því að hann nefndi það hér, hann talaði um að finna eigendur. Nú liggur fyrir hvernig eigi að fara með eigur sparisjóðanna ef þeir eru lagðir niður. Í því hlýtur að felast leiðsögn um það ef menn ætla að leita eigenda þeirra hverjir eigi að verða þeir eigendur. Ég spyr að því hvort hv. þm. sé mér sammála um það. Það er alveg hugsanlegt að leita þá uppi.

Síðan langar mig að spyrja um eitt enn. Það er hvort ekki sé undarlegt að tala um þessi mál með þeim hætti sem hér er gert í ljósi þeirrar umræðu sem hefur farið fram um dreifða eignaraðild og yfirráð yfir stofnunum eins og þessum.