Viðskiptabankar og sparisjóðir

Mánudaginn 26. mars 2001, kl. 18:23:07 (5998)

2001-03-26 18:23:07# 126. lþ. 97.2 fundur 567. mál: #A viðskiptabankar og sparisjóðir# (breyting sparisjóðs í hlutafélag) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 126. lþ.

[18:23]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt að stofnfjáreigendur voru fyrst ábyrgðarmenn og tóku á sig skuldbindingar sem skyldu en ekki í hagnaðarskyni. Þeir hafa hingað til verið mjög hlutlausir í þessu dæmi en með frv. og breytingum sem hér eru lagðar til eru þeir allt í einu komnir með mikla hagsmuni á sína könnu. Hjá sumum sparisjóðunum er það reyndar ekki neitt, af því að stofnféð er lægra en eigið fé, en í öðrum nemur féð 2 millj. á mann og jafnvel upp í 36 millj. á mann. Þegar hagsmunirnir eru orðnir svona miklir þá er alltaf hætta á hinu, herra forseti, sem er bara hluti af mannlegu eðli. Auðvitað er í flestum stofnunum gott og gegnt fólk en hér er verið að búa til leikreglur sem eru þannig að það munu koma tilboð frá einhverjum sem vill eignast stóran hlut í þessum hlutafélögum og þau verða talsvert há.