Vændi á Íslandi

Þriðjudaginn 27. mars 2001, kl. 13:38:19 (6000)

2001-03-27 13:38:19# 126. lþ. 98.94 fundur 423#B vændi á Íslandi# (umræður utan dagskrár), dómsmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 98. fundur, 126. lþ.

[13:38]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Herra forseti. Tvær skýrslur hafa verið unnar á vegum dómsmrn. um vændi að undanförnu, annars vegar um lagaumhverfi vændis, kláms o.fl. hér á landi og lagalegan samanburð við Norðurlöndin en hins vegar um félagslegt umhverfi vændis á Íslandi. Önnur skýrslan var unnin að beiðni þingsins en ég tók ákvörðun um að láta vinna rannsókn á vændi á Íslandi og félagslegu umhverfi þess og kynnti þá ákvörðun í fyrsta sinn á málþingi Samtaka um kvennaathvarf fyrir tæpu ári. Báðar þær skýrslur eru að mínum dómi vel unnar og leggja grundvöll að stefnumótun til framtíðar í þessum málaflokki.

Hv. fyrirspyrjandi hefur beint til mín þremur spurningum um viðbrögð við niðurstöðum þeirra skýrslna, hvaða lagabreytingum ég hyggst beita mér fyrir og hvort ég hyggist stuðla að samstarfi um að koma upp ráðgjöf fyrir þá hópa sem stunda vændi. Ég hef áður upplýst að ég hef í samráði við ríkisstjórnina ákveðið að skipa nefnd sem hafi það hlutverk að gera tillögur um viðbrögð við þessum niðurstöðum. Nefndinni verði falið að meta þennan vanda af þverfaglegum sjónarhóli. M.a. verði farið yfir gildandi refsilög sem varða vændi og kynferðislega misnotkun, rannsókn og meðferð slíkra mála, þar meðtalið stuðning við þolendur og hvort unnt sé að veita börnum og unglingum ríkari refsivernd á þessu sviði. Einnig verði kannað hvort ástæða sé til að setja reglur um rekstur og starfsemi nektardansstaða til að sporna við vændi. Að öðru leyti hafa verkefni nefndarinnar ekki verið takmörkuð.

Sigríður Ingvarsdóttir héraðsdómari mun leiða starf nefndarinnar og prófessor Þórólfur Þórlindsson, formaður áfengis- og vímuefnaráðs, hefur fallist á að taka sæti í nefndinni en einnig hefur verið óskað eftir tilnefningum frá félmrn., heilbr.- og trmrn., samgrn., lögreglunni og Reykjavíkurborg.

Ég tel mikilvægt að málið fari í þennan farveg og fái vandaða umfjöllun. Viðfangsefnið er ekki einfalt og þarf að fá viðamikla skoðun. Margir hv. þm. þekkja án efa hve mikil tímamót fólust í starfi nauðgunarmálanefndar sem skilaði niðurstöðum sínum í lok 9. áratugarins. Fram að þeim tíma hafði kynferðislegt ofbeldi að ýmsu leyti ekki fengið viðhlítandi umfjöllun í stjórnkerfinu en nú hafa flestar tillögur þeirrar nefndar komist í framkvæmd og bætt mjög meðferð slíkra mála þótt enn sé verk fyrir höndum. Ég vonast til þess að sú nefnd sem ég hef ákveðið að skipa geti með sama hætti tekið á máli sem allt of lengi hefur legið í þagnargildi. Umræðan hefur þó aukist að undanförnu, sem á ekki síst rætur að rekja til þess að svonefndur kynlífsiðnaður hefur sprottið hratt upp hér á landi og dafnað vel að því er virðist.

Sú þróun vekur auðvitað upp ýmsar áleitnar spurningar, m.a. um hvert við viljum að íslenskt samfélag stefni í þessum efnum. Eitt af því sem blasir við er að skoða þarf hvernig best er að koma upp ráðgjöf og félagslegri aðstoð fyrir þá einstaklinga sem stunda vændi. Í skýrslunni um félagslegt umhverfi vændis kemur fram að ekki sé til nein sérsniðin þjónusta fyrir einstaklinga í vændi á Íslandi. Slík þjónusta er til í nágrannalöndunum, bæði ráðgjöf svo sem opnar símalínur og félagsleg aðstoð. Nefndin verður að fjalla um hvernig megi auka aðstoð og stuðning við þá sem leiðast út í vændi og efla sérþekkingu á viðfangsefninu í félags- og heilbrigðiskerfinu og hjá lögreglu. Í þessu samhengi er mikilvægt að hafa samráð og samstarf við aðila utan stjórnkerfisins eins og Rauða krossinn og Stígamót sem fást við ráðgjöf og aðstoð við einstaklinga.

Skýrsla um lagalegt umhverfi vændis o.fl. hér á landi sýnir að nágrannalönd okkar hafa að ýmsu leyti aðrar réttarreglur á þessu sviði en við. Nokkur atriði eru sérstaklega til þess fallin að vekja upp spurningar um þörf á lagabreytingum hér á landi. Í öðrum ríkjum Norðurlandanna hafa verið numin úr gildi ákvæði sem lögðu refsingu við því að veita vændisþjónustu. Slíkt ákvæði er enn að finna í íslenskum lögum þótt það sé aðeins bundið við þá sem hafa viðurværi sitt af vændi. Breytingarnar voru studdar þeim rökum að vændi væri fyrst og fremst félagslegt vandamál sem bregðast ætti við með félagslegum úrræðum en ekki því að refsa þeim ógæfusömu einstaklingum sem leiðast út á þá braut.

Skýrsla um vændi á Íslandi og félagslegt umhverfi þess sýnir napran veruleika þeirra sem stunda vændi. Vændi tengist iðulega fíkniefnanotkun. Einstaklingar eiga oft að baki sögu um misnotkun eða bágar heimilisástæður og vændið sjálft skilur eftir sig djúp sár.

Ýmislegt sem fram kemur í skýrslunni bendir jafnframt til þess að gildandi löggjöf vinni gegn því að þessir einstaklingar leiti sér aðstoðar vegna vanda síns jafnvel í heilbrigðiskerfinu. Sú spurning hlýtur því eðlilega að vakna hvort ekki sé rétt að færa íslenska löggjöf til samræmis við Norðurlöndin að þessu leyti. Ég mun víkja frekar að hugsanlegum lagabreytingum í seinni ræðu minni þar sem tíminn er að verða búinn.