Vændi á Íslandi

Þriðjudaginn 27. mars 2001, kl. 13:50:23 (6004)

2001-03-27 13:50:23# 126. lþ. 98.94 fundur 423#B vændi á Íslandi# (umræður utan dagskrár), ÁRÁ
[prenta uppsett í dálka] 98. fundur, 126. lþ.

[13:50]

Árni R. Árnason:

Herra forseti. Ég vil í fyrsta lagi þakka hv. málshefjanda fyrir að vekja þetta mál hér. En það liggur þannig fyrir að við höfum mörg varla viljað trúa því að svo væri sem raun leiðir í ljós. En þegar við hyggjum að er náttúrlega ekki við því að búast að við séum á margan hátt öðruvísi en aðrar þjóðir og það er það sem hér hefur verið dregið fram í vandaðri skýrslu. Það er hins vegar svo að umhverfi eða aðstæður þeirra sem hafa leiðst út á þessa braut eru ömurlegar og skýrslan dregur sannarlega fram þá niðurlægingu og niðurbrot á sjálfsmynd og sjálfsvirðingu, nauðung og ofbeldi sem ríkir í þessum undirheimi. En hún dregur einnig fram að félagslegt umhverfi þessa fólks þarf að bæta, við þurfum að bregðast við og koma til móts við fólkið með því í fyrsta lagi að viðurkenna þann vanda sem uppi er og bregðast við honum. Það er skoðun mín, herra forseti, að það verði að gerast á margháttaðan veg, m.a. með því að bæta lagaákvæði til að við getum tekið á því fólki sem er að misnota annað, dólgunum, en líka að verja þá sem geta ekki sjálfir borið hönd fyrir höfuð sér og er jafnvel verið að misbeita af fólki sem það hefði helst treyst og þar er um að ræða börn.

Ég er þeirrar skoðunar að skýrsla dómsmrh. hafi dregið mjög skýrt fram að lagalegt umhverfi vændis þarf að bæta til þess að tryggja veg og rétt barna og ungmenna og nú síðast tel ég skipta miklu máli að ráðherra hyggst hefja starf til að bæta úr og vænti af því mikils. En það skiptir mestu, herra forseti, að við viðurkennum að hér er uppi vandi og að við honum þarf að bregðast.