Breyting á VII. viðauka við EES-samninginn (starfsmenntun)

Þriðjudaginn 27. mars 2001, kl. 14:06:37 (6012)

2001-03-27 14:06:37# 126. lþ. 98.2 fundur 444. mál: #A breyting á VII. viðauka við EES-samninginn (starfsmenntun)# þál., RG
[prenta uppsett í dálka] 98. fundur, 126. lþ.

[14:06]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Eins og kemur fram í máli formanns nefndarinnar er samstaða um þetta mál. Ég hef litlu við það að bæta en vil geta þess að þær starfsgreinar sem fyrst og fremst falla undir þessa tilskipun eru iðngreinar. Við kölluðum eftir upplýsingum um hversu margar iðngreinar ættu þarna hlut að máli og mér sýnist að þær séu rúmlega 40. Um það er ekkert nema gott að segja, þ.e. að þar öðlist þessar greinar viðurkenningu.

Að öðru leyti vil ég taka fram að það er mikilvægt að við séum vel á varðbergi varðandi gagnkvæma viðurkenningu á starfsréttindum. Það sýnir sig t.d. á Norðurlöndunum þar sem við höfum lagt mjög mikla áherslu á þessi mál. Ég taldi að við hefðum komið á gagnkvæmri viðurkenningu á öllum helstu starfsgreinum en það hefur sýnt sig, t.d. hvað kennaramenntunina varðar, að þegar leita á réttar síns, m.a. í Danmörku þar sem ég hef átt hlut að máli, þá er í raun betra að færa rök fyrir rétti út frá réttindum sem skapast með aðild að EES-samningnum fremur en að styðjast við norræna samninginn.

Með norræna samningnum er vísað í mismunandi ár en í EES-samningnum er gengið út frá sambærilegri menntun. Þetta er mikilvægt að við séum meðvituð um vegna þess að það er ekki nóg að opna landamæri og gera alþjóðasamninga um frjálsar ferðir fólks og gagnkvæm réttindi ef menn rekast svo á glerveggi í hvert einasta skipti sem á að nýta þau réttindi. Það hefur borið nokkuð á því hvað starfsréttindi, starfsnám og nám varðar. Hér erum við að fjalla um þarft mál, 42 starfsgreinar öðlast frekari réttindi en áður og ég mæli með samþykkt þessarar tillögu.