Samningur um opinber innkaup

Þriðjudaginn 27. mars 2001, kl. 14:16:02 (6017)

2001-03-27 14:16:02# 126. lþ. 98.6 fundur 565. mál: #A samningur um opinber innkaup# þál., ÞSveinb
[prenta uppsett í dálka] 98. fundur, 126. lþ.

[14:16]

Þórunn Sveinbjarnardóttir:

Hæstv. forseti. Ég kem hér upp til að hnykkja á tveimur atriðum sem fylgja þessu máli. Eins og fram kom í máli hv. frsm. styðja fulltrúar Samfylkingarinnar í utanrmn. þá afgreiðslu sem þar fór fram um þáltill. um aðild að samningi um opinber innkaup.

Það sem ég tel mikilvægt að komi fram í þessu sambandi er tvennt eins og ég sagði áður. Það er að fólk geri sér grein fyrir því hversu víðtækur þessi samningur er og hversu margvísleg útboðin geta orðið sem honum fylgja, allt frá útboðum á sjúkragögnum til vörubifreiða og annað slíkt og reyndar fengum við fulltrúar í hv. utanrmn. lista yfir útboð, reyndar á EES-svæðinu, en hann gefur til kynna í hvað stefnir.

Í annan stað held ég að hér þurfi að koma fram við umræðuna að samningurinn, sem undirritaður var í Marakess þann 15. apríl 1994 og tilgreindur er í IV. viðauka við samninginn um stofnun Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, opnar ekki bara leiðir Íslendinga til útlanda, ef þannig má að orði komast, heldur opnar hann einnig ákveðnar leiðir til samstarfs við önnur ríki og þar er sérstaklega tilgreint og í honum felst pólitísk viljayfirlýsing um að efna til samstarfs við fátæk ríki, samstarfs á sviði útboða og samstarfs sem lýtur að því að gera þeim auðveldara að taka þátt í slíkum útboðum, þ.e. að renna styrkari stoðum undir frjáls viðskipti og alþjóðleg viðskipti við fátæk ríki sem flest eru líklega í þriðja heiminum.

Mig langaði til, herra forseti, að fram kæmi í umræðunni að þessi samningur eins og flestir alþjóðasamningar hafa á sér margar hliðar og í honum felist þessi pólitíska viljayfirlýsing. Mikilvægt er að það komi fram á hinu háa Alþingi og einnig er mjög mikilvægt að íslensk stjórnvöld geri eitthvað með þá pólitísku viljayfirlýsingu sem felst í samningnum.