Birting laga og stjórnvaldaerinda

Þriðjudaginn 27. mars 2001, kl. 14:19:18 (6018)

2001-03-27 14:19:18# 126. lþ. 98.7 fundur 553. mál: #A birting laga og stjórnvaldaerinda# (birting EES-reglna) frv., dómsmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 98. fundur, 126. lþ.

[14:19]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um birtingu laga og stjórnvaldaerinda. Með frv. eru lagðar til nauðsynlegar breytingar á lögunum til að tryggja að birting EES-gerða hér á landi fullnægi formskilyrðum laga um birtingarhætti og sé hafinn yfir allan vafa.

Í samræmi við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið hvílir sú þjóðréttarlega skuldbinding á Íslandi að taka upp í landsrétt þær gerðir sem falla undir EES-samninginn. Af eðli EES-samningsins sem þjóðréttarsamnings leiðir að þær gerðir verða ekki sjálfkrafa hluti íslensks réttar heldur verður að leiða þær í lög með þeim aðferðum sem íslensk stjórnskipan áskilur.

Í þessu felst m.a. að þær reglur sem ætlað er að innleiða EES-gerðir verði birtar með fullnægjandi hætti í samræmi við 27. gr. stjórnarskrárinnar.

Við mat á því hvort birting EES-gerðar sé fullnægjandi er nauðsynlegt að huga að þeim aðferðum sem koma til greina við að taka slíkar gerðir upp í landsrétt. Þessar aðferðir eru tvenns konar og hefur önnur þeirra verið nefnd umritun en hin aðferðin tilvísun eða upptaka. Með umritun er átt við að ákvæði viðkomandi gerðar eru tekin efnislega upp í lög eða stjórnvaldsfyrirmæli. Þegar þeirri aðferð er beitt þarf ekki að birta viðkomandi gerð sérstaklega, enda hafa þá verið birt þau lög eða stjórnvaldsfyrirmæli þar sem reglugerðirnar er að finna. Með tilvísunaraðferðinni er á hinn bóginn kveðið á um það í lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum að tiltekin gerð skuli öðlast gildi án þess að ákvæði hennar séu efnislega tekin upp í lögin eða fyrirmælin.

Þegar þeirri aðferð hefur verið beitt hefur framkvæmdin ýmist verið að birta viðkomandi gerð sem fylgiskjal með lögum eða fyrirmælum eða látið hefur verið nægja að vísa til birtingar þeirra í C-deild Stjórnartíðinda eða EES-viðbæti við stjórnartíðindi EB. Það afbrigði tilvísunaraðferðarinnar að vísa til C-deildar Stjórnartíðinda eða EES-viðbætis án þess að gerð sé birt í heild í B-deild Stjórnartíðinda hefur sætt ákveðinni gagnrýni úr fleiri en einni átt svo sem nánar er rakið í athugasemdum við frv.

Í áliti er umboðsmaður Alþingis lét í té í ársbyrjun 1998 benti hann á að stjórnarskrárvarinn áskilnaður um birtingu laga væri byggður á því sjónarmiði að almenningur ætti að eiga þess kost að kynna sér efni og tilvist réttarreglna sem gilda eiga í skiptum manna sín á milli og um stjórnvöld. Á þeim grundvelli dró hann í efa að birting á þessu afbrigði tilvísunaraðferðarinnar fullnægði formskilyrðum laga um birtingarhætti og taldi a.m.k. sýnt að sá háttur sem þar væri hafður á teldist vart nægilega aðgengilegur til að fullnægja stjórnarskrárvörðum kröfum um efnislegt inntak birtingar.

Undir þessar athugasemdir var tekið í skýrslu nefndar sem forsrh. skipaði til að fjalla um lögleiðingu EES-gerða og dómstólar hafa a.m.k. í einu tilviki metið annmarka þeirrar aðferðar svo að tilætluð réttaráhrif gerðar sem þannig var birt gengu ekki eftir. Þegar metið er til hvaða aðgerða verði gripið til að bregðast við athugasemdum af þessu tagi er til þess að líta að ör þróun á sviði upplýsingatækni og almennur aðgangur að nettengdum tölvum hafi á fáeinum árum gerbreytt þeim möguleikum sem áður voru á hvers kyns miðlun upplýsinga.

Ríkisstjórnin markaði sér þegar á liðnum síðasta áratug framsækna stefnu um málefni upplýsingasamfélagsins undir því metnaðarfulla formerki að Íslendingar verði í fararbroddi þjóða heims við nýtingu upplýsingatækni í þágu bætts mannlífs og aukinnar hagsældar. Meðal þeirra markmiða sem stefnunni voru sett var að endurskoða löggjöf, reglur og vinnubrögð stjórnsýslunnar með tilliti til upplýsingatækni til að örva tæknilegar framfarir og til að vernda réttindi einstaklinga og gera upplýsingar aðgengilegar almenningi án tillits til efnahags og búsetu. Sérstaklega bæri að huga að nýtingu upplýsingatækninnar við miðlun opinberra upplýsinga og gera öll upplýsingakerfi ríkisstofnana þannig úr garði að hægt yrði að sækja þangað upplýsingar um lög, reglur, réttindi, skyldur og þess háttar um tölvunet og jafnframt yrði hægt að reka erindi sín, fylgjast með framgangi mikilvægra mála og fá alla þá þjónustu sem mögulegt væri að veita með þeim hætti.

Í samræmi við þessi markmið hafa stjórnvöld unnið að því að koma sér upp heimasíðum eða vefsetrum á netinu til að miðla þar ýmsum þeim upplýsingum sem stjórnvöld miðla almenningi að eigin frumkvæði. Sérstök áhersla hefur verið lögð á að miðla hagnýtum upplýsingum á netinu og veita almenningi á þennan hátt aðgang að ýmsum gagnabönkum. Þannig hafa þjóðskrá, lagasafnið og Alþingistíðindi t.d. verið aðgengileg á netinu um nokkra hríð og innan skamms verður miðlægur gagnagrunnur fyrir réttarheimildir opnaður á netinu. Í því felst að almenningi verði gerð aðgengileg á einum stað á netinu öll lög, reglugerðir og önnur stjórnvaldsfyrirmæli, alþjóðasamningar, dómar og fullnaðarúrskurðir og álitsgerðir stjórnvalda sem hafa almennt gildi og eru fordæmisskapandi. Hluti þessara gagna er þegar aðgengilegur á netinu en unnið er að því að koma öðrum upp svo sem reglugerðarsafni.

Samhliða þessu hafa upplýsingar um réttarheimildir á Evrópska efnahagssvæðinu orðið mun aðgengilegri en áður var. EES-viðbætir við stjórnartíðindi EB er nú gefinn út á netinu jafnhliða hinni prentuðu útgáfu hans. Jafnframt er EES-samningurinn birtur á heimasíðu utanrrn. í heild sinni að meðtöldum þeim gerðum sem vísað er til í viðaukum og bókunum við hann og uppfærður reglulega. Öll miðlun upplýsinga á netinu telst þó enn sem komið er til nokkurs konar aukaþjónustu af hálfu hins opinbera og engin sett ákvæði gera ráð fyrir að miðlun upplýsinga með rafrænum hætti teljist nægileg birting eða fullnaðarbirting settra reglna. Svo er heldur ekki ætlun þessa frv. Hagræði af rafrænni miðlun upplýsinga sem þessara er hins vegar augljóst og ekki er vafi á því að með tímanum ætti rafræn birting þeirra að geta komið í stað miðlunar með öðrum hætti.

Niðurstöður kannana benda jafnframt til að þjóðin hafi ekki síður en stjórnvöld tileinkað sér framsækið hugarfar gagnvart hinni nýju tækni og fært sér hana í ríkum mæli í nyt. Tölvueign og internetnotkun landsmanna er með því mesta sem þekkist í heiminum og fer stöðugt vaxandi. Það bendir til að skilyrði séu að skapast til að upplýsingatæknin verði á markvissan hátt hagnýtt í þágu þeirra sjónarmiða sem áskilnaður um birtingu laga og annarra réttarreglna byggist á, enda þjónar hinn nýi miðill þeim e.t.v. betur en nokkur annar á okkar tímum. Þannig þykir birting EES-gerða á netinu og sá greiði aðgangur sem Íslendingar virðast almennt hafa að upplýsingum sem þar eru birtar skapa nauðsynlegar forsendur fyrir þeirri tilhögun sem hér er lögð til og felst í því að birting EES-gerða í EES-viðbæti við stjórnartíðindi EB og eftir atvikum með C-deild Stjórnartíðinda verði jafngild birtingu í B-deild Stjórnartíðinda. Þetta hvílir á því mati að aðgengi að EES-viðbætinum á rafrænu og prentuðu formi sé fullnægjandi og í öllum atriðum sambærilegt við aðgengi almennings að B-deild Stjórnartíðinda. Með þessari tilhögun frv. er komið til móts við athugasemdir um að fyrirkomulag við birtingu fullnægi tæpast formskilyrðum laga um birtingarstað um leið og upplýsingatæknin ryður úr vegi þeim hindrunum sem greiðum aðgangi að EES-gerðum þykja hafa verið settar.

Herra forseti. Ég hef gert grein fyrir efni frv. Ég vil að lokum láta þess getið að nýlega hef ég skipað nefnd til að taka til heildarendurskoðunar lög um birtingu laga og stjórnvaldaerinda í ljósi þeirra möguleika sem tæknin býður upp á. Ég vænti þess að í tillögum þeirrar nefndar felist heildstæð lausn á birtingu laga og annarra settra réttarreglna, þar á meðal þeim sem þetta frv. tekur til. Fyrirsjáanlegt er að störf þeirrar nefndar taki þó lengri tíma en svo að unnt sé að una við þá óvissu sem skapast hefur um réttaráhrif þeirra EES-gerða sem birtar hafa verið með tilvísun án þess að viðkomandi gerð hafi birst sem fylgiskjal í Stjórnartíðindum.

Herra forseti. Að svo búnu legg ég til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allshn. og 2. umr.