Kísilgúrverksmiðja við Mývatn

Þriðjudaginn 27. mars 2001, kl. 14:48:42 (6023)

2001-03-27 14:48:42# 126. lþ. 99.1 fundur 510. mál: #A kísilgúrverksmiðja við Mývatn# (sala á eignarhlut ríkisins) frv., PHB
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 126. lþ.

[14:48]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Ég skrifa undir nál. meiri hluta hv. iðnn. með fyrirvara, ekki vegna þess að ég sé á móti frv. sem slíku, ég er mjög ánægður með það. Ég er mjög ánægður með að ríkið skuli hætta þessum rekstri, iðnrekstri, en ég hefði viljað ganga eilítið lengra. Þegar frv. hefur verið samþykkt, eins og hér stendur til, er það í rauninni bara tvær greinar, annars vegar 1. gr. sem heimilar ríkissjóði að selja hlut sinn í verksmiðjunni, sem verður gert á 15 ára skuldabréfi afborganalaust fyrstu fjögur árin, og hins vegar 2. gr. um ákveðinn sjóð, Kísilgúrsjóð. Sá sjóður hefur svo litla fjármuni til ráðstöfunar, 5 millj. fyrsta árið og 3 millj. næstu þrjú ár, að mér finnst alveg ástæðulaust að hafa heilan lagabálk um ekki meira innihald.

Þess vegna hef ég lagt til brtt. sem hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

,,2. gr. orðist svo:

12. gr. laganna fellur brott.``

Og þá eru lögin öll fallin brott, þ.e. þegar búið er að selja hlut ríkisins í Kísiliðjunni og greiða hann. Ég sé enga ástæðu til þess að hafa heilan lagabálk og heil lög um sjóð sem er með 5 millj. kr. tekjur fyrsta árið og 3 millj. kr. úr því. Það má alveg eins setja þetta inn í fjárlög, ef einhver nennir að gera það.