Kísilgúrverksmiðja við Mývatn

Þriðjudaginn 27. mars 2001, kl. 14:58:29 (6026)

2001-03-27 14:58:29# 126. lþ. 99.1 fundur 510. mál: #A kísilgúrverksmiðja við Mývatn# (sala á eignarhlut ríkisins) frv., PHB
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 126. lþ.

[14:58]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Vegna orða hv. þm. Svanfríðar Jónasdóttur um ágæti Kísilgúrsjóðsins og þess að hann væri eins konar auðlindagjald þá get ég í sjálfu sér fallist á það og má kannski segja að það séu rök fyrir að halda honum við. Hins vegar gætti ég þess þegar ég talaði áðan að fara ekki inn á ráðstöfun hans á fé, enda hefur ekki gefist langur tími til þess að skoða hana. En við mjög lauslega skoðun mína á ráðstöfun fjár sýnist mér að hann hafi sett einhverjar milljónir í hlutafé í timburverksmiðju á Húsavík sem eins og kunnugt er hefur farið á hausinn, þannig að tekist hefur af þessu litla fé að eyða opinberu fé skattborgaranna, opinberu fé sem almenningur á, upp á milljónir, og henda því í súginn, ráðstafa því til verksmiðju sem varð gjaldþrota.