Kísilgúrverksmiðja við Mývatn

Þriðjudaginn 27. mars 2001, kl. 14:59:45 (6027)

2001-03-27 14:59:45# 126. lþ. 99.1 fundur 510. mál: #A kísilgúrverksmiðja við Mývatn# (sala á eignarhlut ríkisins) frv., TIO
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 126. lþ.

[14:59]

Tómas Ingi Olrich:

Herra forseti. Það mál sem hér er til umræðu markar tímamót fyrir kísilgúrverksmiðjuna við Mývatn og fyrir atvinnulífið í Mývatnssveit í heild. Mikil óvissa hefur ríkt um þetta fyrirtæki sem hefur staðið undir mikilli atvinnu í Mývatnssveit í langan tíma og það var orðið nokkuð ljóst að hinir erlendu eigendur verksmiðjunnar höfðu takmarkaðan áhuga á því að starfrækja fyrirtækið til framtíðar. Að sjálfsögðu gilti þar nokkur sú óvissa um námavinnslu sem ríkt hafði lengi um kísilgúrverksmiðjuna.

[15:00]

Þeim eigendaskiptum sem hér er verið að véla um fylgja þær breytingar að nýir aðilar koma inn í fyrirtækið með breyttar hugmyndir og jákvæðari um framgang verksmiðjunnar. Þeir eru reiðubúnir til að byggja þar til framtíðar með nýjar hugmyndir um framleiðsluvörur. Ég hygg að þessar breytingar verði að skoðast í því ljósi að þær séu jákvæðar fyrir sveitarfélagið og starfsemina í kísilgúrverksmiðjunni. Að sjálfsögðu verðum við að gera ráð fyrir því að þar geti í framtíðinni verið bæði kísilduftframleiðsla en einnig kísilgúrvinnsla. Þar skiptir miklu að mat á umhverfisáhrifum námsins hefur farið fram og hefur ekki verið hægt að sýna fram á að námið hafi orðið til þess að skaða lífríkið. Þetta er að mörgu leyti prófmál á það hvort við getum látið fara saman þá nýtingu á náttúrunni sem felst í því að friða hana að hluta og gera hana að verðmætum stað fyrir ferðamenn, verðmætum stað í augum náttúruverndarmanna, en jafnframt að nýta þau náttúruauðæfi sem héraðið býður upp á.

Ég vil lýsa yfir ánægju minni með þetta frv. og með nefndarálitið og lýsi yfir stuðningi mínum við það í heild.