Barnaverndarlög

Þriðjudaginn 27. mars 2001, kl. 15:19:30 (6029)

2001-03-27 15:19:30# 126. lþ. 99.2 fundur 572. mál: #A barnaverndarlög# (heildarlög) frv., GÖ
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 126. lþ.

[15:19]

Guðrún Ögmundsdóttir:

Virðulegur forseti. Hér er mjög merkilegt mál á dagskrá þingsins, þ.e. ný barnaverndarlög. Ekki það að eldri lög væru algjörlega úr sér gengin heldur er í frv. reynt að endurskoða það sem mætti betur fara í ljósi reynslunnar.

Ég hef borið saman lögin sem eru í gildi núna og frv. sem hér hefur verið lagt fram og ég verð að játa að það er margt spennandi og skemmtilegt í því. Hins vegar er jafnframt ýmislegt sem skoða þarf í hv. félmn.

Ágætt væri að byrja á að nefna hvers maður saknar í svona stóru frv. Mér finnst að betur hefði mátt gera grein fyrir stefnum, straumum, þróun og öðru í barnaverndarvinnu, hvað hefur verið að gerast á Norðurlöndunum í samanburði við það sem hefur verið gert hér, þ.e. allar þessar hugmyndafræðilegu pælingar og skilgreiningar sem liggja oft að baki svona vinnu. Ég held að gott hefði verið að fá slíka nálgun t.d. í greinargerðinni. Þar er gerð góð grein fyrir þróun mála og þróun laga á þessu sviði en allt styðst þetta við hugmyndafræði og annað.

Mér fannst líka mjög gott að sjá að notast hafði verið við þá vinnuaðferð að láta þá sem hafa mest verið að vinna í þessum málum segja álit sitt á núverandi lögum, sjá hvar skórinn kreppir að þeirra mati, og hvað þeir vildu sjá breytast. Þar voru ákveðnar vísbendingar fyrir nefndina að vinna úr við gerð þessa frv. Verkefnið hefur tekið langan tíma. Ég er ein af þeim sem kom að starfi nefndarinnar og tel reyndar að þetta sé ekki vinna sem hægt er að flýta sér mikið við. Þetta er vandasamt verk enda málefni barna vandmeðfarin. Við eigum alltaf að vanda vel til verka.

Svo ég fari aðeins yfir frv., ef við skoðum 4. gr. um meginreglur í barnaverndarstarfi, þá sakna ég þess að ekki sé hnykkt strax á því í upphafi sem segir í 17. gr. um tilkynningarskyldu þeirra sem varir verða við að barn sé vanrækt, misnotað o.s.frv., að þá beri viðkomandi skylda til að segja frá því þrátt fyrir trúnað gagnvart þeim sem segir frá. Barnaverndarlög eru æðri öðrum lögum þegar um það er að ræða. Ég vildi gjarnan láta hnykkja á því strax í upphafi í meginmarkmiðum laganna að þessi skylda er afskaplega rík. Á seinni árum hefur verið gert dálítið af því að kynna þessi mál, kynna barnaverndina og mikilvægi hennar, sem hefur orðið til þess að fleiri mál hafa komið fram í dagsljósið. Ég tel það jákvætt vegna þess að fólk er þá betur vakandi fyrir aðbúnaði barna. Það á ekki að kvarta yfir of mörgum barnaverndarmálum, fjölgun þeirra er af því að fólk er meðvitaðra en áður.

Kærunefndin er nýmæli. Hún kemur í stað barnaverndarráðs. Mér finnst rétt að það komi fram að engum af úrskurðum barnaverndarráðs sem hafa farið til Hæstaréttar, þeir eru allnokkrir, hefur verið hnekkt. Allt sem barnaverndarráð hefur tekið sér fyrir hendur hefur í raun staðið eins og stafur á bók. Í sjálfu sér hefur verið afskaplega góð sátt um barnaverndarráð og þar hefur farið fram fagleg vinna. Þetta heitir núna kærunefnd barnaverndarmála. Úr því að við setjum sviptingarnar fyrir dómstólana þá er kannski eðlilegt að það heiti kærunefnd. Aftur á móti þarf alltaf að hafa það að leiðarljósi að samsetning nefndarmanna sé með þeirri prýði sem alla tíð hefur verið um barnaverndarráð. Ég efast ekki um að svo muni verða.

Spyrja má hvort ekki sé eðlilegt að það komi fram, þó að það sé kannski innifalið í slíkri nefnd, að hún geti kallað til sérfræðiþekkingu ef þörf á reynist. Það vill oft reyna á það og eiginlega þarf það að standa í lagatextanum. Við munum því skoða það í nefndinni að setja slíkt í lagatextann, það er oft betra að hafa þar meira en minna til að tryggja að vel sé á málum haldið og allir séu upplýstir.

Þegar maður veltir fyrir sér eftirliti Barnaverndarstofu með barnaverndarnefndum fer maður að hugsa um hvert sé hægt að skjóta úrskurðum. Það er heimilt að skjóta úrskurðum Barnaverndarstofu til félmrn. Það verður eiginlega að reyna að fella það betur inn í 8. gr. Ég legg til að nefndin skoði það.

Ég vil einnig að 9. gr. verði skoðuð nánar. Ég er mjög ánægð með þessa framkvæmdaáætlun varðandi barnaverndarnefndirnar, að þær geri áætlun í barnaverndarmálunum. Þá er hins vegar spurning, eftir að öllu þessu hefur verið safnað saman í ráðuneytinu, hvort það ætti að gera grein fyrir stöðu mála fyrir þinginu, félmn. eða eitthvað slíkt. Þannig væri hægt að fara svolítið yfir málið, þ.e. hvernig það stendur hverju sinni. Ég held að það væri til bóta.

Ég er fyrst og fremst að leggja fram ýmsar ábendingar og vangaveltur sem ekki verður hjá komist. Ég ætlaði að tala hér um 12. gr. Í gildandi lögum er ákvæði sem við ættum jafnvel að skoða hvort setja ætti þar inn. Það er ekki þarna inni núna en stendur í 4. gr. í gildandi lögum. Spurningin er hvort ekki þyrfti að árétta þar að forvörnum og fræðslu sé sinnt og koma með tillögur um að stuðla að betri aðbúnaði barna, af því að við erum almennt að tala um barnaverndarnefndirnar. Þær mættu kannski hafa styrkara faglegt bakland. Ég er að tala um 12. gr., um aðbúnað barna og að hnykkja þurfi betur á því þannig að hann sé aldrei andstæður uppeldismarkmiðum. Í 12. gr. þyrfti jafnframt að koma betur fram að hagur barnsins sé ávallt í fyrirrúmi. Þeir sem þekkja til barnaverndarmála og vinnu nefndanna, starfsmenn þeirra, vita að ákveðin þróun hefur verið í gangi þar sem meira er horft á hagsmuni kynforeldra og annars, þ.e. hagur barnsins ekki endilega í allra fyrsta sæti. Þess vegna er sú vísa aldrei of oft kveðin.

Í 14. gr. væri kannski eðlilegt að bæta við, þó það komi auðvitað fyrir annars staðar í frv., ákvæðum um þvingunaraðgerðir, að barnaverndarnefnd geti ein tekið slíka ákvörðun. Það er það sem var t.d. í eldri lögunum.

Varðandi tilkynningarskyldu almennings þá hef ég skrifað hjá mér að við mættum taka meira úr 12. gr. og fella undir þá grein. Þetta er eitt af þeim lykilatriðum sem eru farin að verða mjög virk en þetta er bara fagleg ábending. Þá komum við aftur inn á tilkynningarskylduna og það sem ég sagði áðan, um að það væri raunar afskaplega gott að málum hefði fjölgað. Ég vil meina að það sé vegna aukinnar meðvitundar um hag barna.

Eitt vantar alveg í 18. gr., þ.e. varðandi það er barn hefur framið verknað. Börn geta orðið fyrir ofbeldi en þau geta líka beitt aðra ofbeldi. Umfjöllun um það virðist vanta í frv. Það getur þó vel verið að inn á það sé komið, þetta er nú mikill doðrantur. Ég biðst þá bara forláts ef þetta reynist rangt hjá mér. Ég gat ekki fundið neitt um þetta þannig að ég legg til að við skoðum það aðeins í nefndinni. Við getum þá beðið starfsmenn nefndarinnar að lesa frv. í leit að einhverjum stikkorðum. Börn eru líka gerendur stundum og á því þarf líka að taka. Ég vil bara að það gleymist ekki.

Samstarf er náttúrlega afar mikilvægt í svona málum og spurning hvort hnykkja ætti betur á þeim málum og mætti kannski gera það í greinargerðinni. Í barnaverndarmálum er notuð teymisaðferð og er full þörf á slíku vinnulagi í svo erfiðum málum. Ég legg til að við skoðum aðeins eldri lögin með tilliti til þessa. Þar er, held ég, breyting frá 1998 varðandi þessi mál.

Annað gat ég ekki betur séð en vantaði líka í frv., þ.e. að almennt væri fjallað um skyldur foreldra. Það er í gildandi lögum en það þarf að ítreka sérstaklega að foreldrar hafa ákveðnar skyldur o.s.frv. Ég gat ekki séð að á það væri minnst. Það er í 17. gr. gildandi laga en ég gat ekki fundið það í þessu frv. Það þarf að skoða í nefndinni.

[15:30]

Í frv. er fjallað um tilkynningar um málsmeðferð vegna þungaðra kvenna, um upphaf barnaverndarmála og allt slíkt. Þetta er í rauninni það sem hefur verið praktíserað og sú sem hér stendur stóð einmitt fyrir atriðum eins og stuðningsúrræðum á meðgöngu, setti inn könnun og hert ungbarnaeftirlit eftir fæðingu barna o.s.frv. Það sem er náttúrlega afar mikilvægt, og við komum kannski að síðar, er að þetta sé líka unnið í teymisvinnu. Ég bendi á vinnu á heilsugæslunni á Akureyri sem hv. þm. Soffía Gísladóttir gæti kannski greint frá. Við verðum að gæta okkur á að vera ekki oft með of mikil inngrip.

24. gr. fjallar um úrræði með samþykki foreldra. Spurning er í sambandi við úrræði með samþykki foreldra og síðan úrræði utan heimilis o.s.frv., hvort við þyrftum að taka til eða gætum þurft að taka til einhverra stofnana, nema sérstaklega í c-lið þegar verið er að tala um að útvega barni viðeigandi stuðning eða meðferð, hvar það getur átt við. Þetta er kannski spurning um að hafa vaðið svolítið fyrir neðan sig vegna minni nefnda sem hafa færri úrræði og þá er spurning hvort þær gætu leitað til annarra sveitarfélaga með þau, er þá verið að tala um dagvist og skóla, skólavist, sveitadvöl, stuðningsfjölskyldur o.s.frv.

Spurning er hvort ekki þurfi að hnykkja á því þegar um er að ræða tímabundna fósturráðstöfun, einnig þetta með lögráða manninn. Við þurfum alltaf að vera svolítið vakandi fyrir því, því að ekki var nógu hnykkt á þessu í eldri lögunum.

26. gr. fjallar um úrræði án samþykkis foreldra og það er talsvert þar sem ætti jafnvel líka heima í þessu. Ekki er óeðlilegt að telja upp sömu þætti í ákvæðum þessara þriggja greina, 24., 25. og 26. gr. Mér finnst við eigum að skoða að það færi alveg saman að hafa slíkt þar.

Það sem hefur verið erfiðast í þessum málum er þegar þau hafa verið án samþykkis og ég þekki til mála sem hafa farið fyrir dómstóla. Ef samið var um forsjá eða fóstursamning og annað, þá var eins og það gæfi kynforeldrum sterkari réttarstöðu seinna meir en þegar um sviptingu var að ræða. En núna er búið að taka einmitt þessi mál öll og sundurliða þau vel og það er á margan hátt til fyrirmyndar.

Ég nefndi 30. gr., úrræði barnaverndarnefnda vegna þungaðra kvenna. Við verðum alltaf að fara varlega með svona mikil inngrip eins og sviptingu lögræðis sem er alveg gríðarlega alvarlegur hlutur. Eins og ég sagði frá hefur í rauninni verið praktíseruð mjög jákvæð vinna á öllum þeim stofnunum sem hafa að þessu komið. Þetta er í sjálfu sér ekki nýmæli, þetta var heimild í lögunum sem eru núna í gildi. En það þarf bara einhvern veginn að brýna fyrir fólki að þetta er í rauninni alltaf í neyðartilvikum. Við vitum aldrei hvenær svo skipast veður í lofti að mjög mikil forræðishyggja yrði gagnvart manneskjum og þá er þetta of aðgengilegt að mínu mati. Við þurfum því að skoða hvernig í rauninni á að hnykkja á því að þetta er neyðarúrræði.

Upplýsingar úr sakaskrá eru líka eitt af nýmælunum. Mér finnst að við eigum að láta Persónuverndina sérstaklega vera með umsögn um þessa grein, 36. gr., vegna þess að þetta er mjög mikilvægt og vandmeðfarið mál. Við búum í litlu samfélagi, þó að ég sé nú ein af þeim sem vilja helst hengja þá alla á götum úti sem misnotað hafa börn. Það er mjög mikilvægt að fast teymi sjái um að gefa slíkar upplýsingar. Það geta ekki verið hvaða starfsmenn sem er á Barnaverndarstofu, heldur teymi með mikla sérþekkingu sem sér um slík mál. Þess vegna er mjög mikilvægt að við fáum umsögn Persónuverndar um hvernig þessum málum væri best fyrir komið og hlýða því svolítið. Síðan vantar einn hóp þarna inn í, þ.e. fatlaðir, og við munum skoða það líka í nefndinni.

Við vildum gjarnan sjá þetta í framkvæmd en við verðum að gæta okkur á að pyttir eru í þessu. Ég vildi gjarnan sjá þetta útfært sem best, öllum til hagsbóta, að allir geti fengið upplýsingar en ekki að allir geti verið á kafi ofan í þessu, það gengur heldur ekki.

Ég fer að verða búin með tíma minn. Mig langar aðeins að fara í það nýmæli að fara með sviptingarmálin beint fyrir dómstóla. Mjög margir hafa verið pínulítið hræddir um þau mál. En það sem skiptir meginmáli er að þeir sérfróðu meðdómsmenn sem talað er um í 54. gr. séu í rauninni allir jafnsettir og er nauðsynlegt að slíkir aðilar séu til staðar í jafnalvarlegum málum og sviptingarmál eru.

Það eru mjög margir tvístígandi í því hvort fara eigi þá leið að fara með þetta beint fyrir dómstóla. En ég er svo sem alveg opin fyrir því, þó að ég finni að ég sé örlítið krítísk, en mér finnst engin ástæða til að vera of neikvæð, alveg af og frá, svo fremi sem við tryggjum þessa sérfróðu meðdómsmenn. Þarna þurfum við einmitt að fá skoðun bæði hjá dómarafélaginu og réttarfarsnefnd og slíkum aðilum. Stundum hefur verið umræða um að dómstólar hafi ekki verið nægilega hliðhollir börnum. Þá umræðu þekkjum við hér.

Mig langar aðeins að ræða um fósturkaflann áður en ég vík úr ræðustól. Mig langar að benda á leið í norsku lögunum. Sú leið var rædd í upphafi nefndarvinnunnar. 67. gr. fjallar um leyfisveitinguna og spurning er hvort þetta eigi ekki bara allt að vera á einum stað. Þetta er núna í barnaverndarnefndunum og síðan hjá Barnaverndarstofu. Mér finnst spurning hvort við eigum að skoða þetta með samræmdar leiðbeiningar í huga. Ég er mjög opin fyrir því að umsókn sé líka hjá Barnaverndarstofu alveg eins og öll önnur umgjörð og stuðningur, allt fer þar í gegn, t.d. valið á fósturforeldrunum. Því er spurning hvort umsóknin eigi að fara þar í gegn eða ekki, það væri gaman að taka umræðu um það.

Norðmennirnir eru t.d. með í sínum lögum að undir ákveðnum skilyrðum þegar lítil börn eru sett í fóstur, þau geta misst foreldra sína eða annað foreldrið, ýmis gangur er á þeim málum, þá sé ættleiðing heimil en með ákveðinni umgengni. Ég legg til að við skoðun það hvort við ættum að fara þá leið. Þetta var rætt aðeins í nefndinni en þá var alltaf talað um ættleiðingarlögin, þetta sé þar, en ég sé ekkert að því að barnaverndarlögin um fósturmál geti ekki verið með ákveðnar vísbendingar í önnur lög. Mér finnst því að við eigum að skoða það.

Ég er alveg að verða búin með tíma minn. Ég hef áhyggjur af 74. gr., sem fjallar um umgengni við barn í fóstri. Ég fæ ekki betur séð --- ég vona að ég verði þá leiðrétt með það í nefndinni þegar við köllum til einhverja sem hafa verið að vinna með þetta --- en að í rauninni sé alltaf hægt að fara með umgengnismálið á 12 mánaða fresti, og þar með sé verið að búa til eitthvert jó-jó með fyrirkomulagi á umgengni í fósturmálum. Þá spyr maður sjálfan sig: Hvaða hagsmunum er verið að þjóna í þeim málum?

Þegar gengið er frá fóstursamningi þá yrði það algjörlega hliðstætt því sem umgengnin er, vegna þess að það hefur líka að gera með afstöðu fósturforeldra hvernig umgengni hefur verið. Hún getur líka haft of mikil fælingaráhrif ef um of mikla umgengni er að ræða og í mjög erfiðum málum. Þessi mál eru oft dálítið vandmeðfarin.

Til fyrirmyndar er í frv. það sem varðar aldur barna og skoðun þeirra á málum og hvenær má tala við þau.

Nú er máli mínu lokið, herra forseti, í bili. Ég veit að frjóar umræður verða í nefndinni. Það eru margir sem nefndin þarf að tala við. Og lýk ég nú máli mínu.