Barnaverndarlög

Þriðjudaginn 27. mars 2001, kl. 15:47:37 (6031)

2001-03-27 15:47:37# 126. lþ. 99.2 fundur 572. mál: #A barnaverndarlög# (heildarlög) frv., ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 126. lþ.

[15:47]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Við ræðum frv. til barnaverndarlaga og hafa hv. þm. á undan mér farið nokkuð yfir ýmis atriði þessa frv. Ég verð að byrja á því að fagna því hvað það virðist hafa verið farið í ágæta vinnu við undirbúning frv. og einnig að í athugasemdum við frv. er farið yfir þróun lagasetningar, sem ég tel vera til fyrirmyndar, og síðan farið yfir hvaða breytingar þetta frv. hefur í för með sér.

Vissulega er það svo að þegar barnavernd er til umræðu og staða barna og velferð þeirra, verðum við að hafa hagsmuni barnsins í fyrirrúmi og auðvitað verður það að vera hinn rauði þráður í lagasetningu sem þessari.

Ég tek því undir athugasemdir sem koma fram hjá hv. þm. Guðrúnu Ögmundsdóttur, sem er annar fulltrúi Samfylkingarinnar í félmn., þar sem hún gerði einmitt að umtalsefni að það þyrfti að hnykkja á því að hagsmunir barnsins væru í fyrirrúmi og vissulega er það svo í þessari lagasetningu.

Þar sem við höfum verið aðeins að skoða þetta frv., þá er lagt til að sett verði á fót kærunefnd barnaverndarmála og barnaverndarráð í þeirri mynd sem nú er verði lagt niður. Síðan verði fjallað um þau mál sem hafa komið fyrir barnaverndarráð fyrir dómi. Aðrar breytingar sem eru í þessu frv. eru framkvæmdaáætlanir á sviði barnaverndar þar sem sveitarstjórn skal gera framkvæmdaáætlun á sviði barnaverndar fyrir hvert kjörtímabil og er það af hinu góða.

Ég tek undir ábendingar um að ástæða væri til að ráðuneytið hefði einnig ákveðnar skyldur og kæmi t.d. með skýrslur til þingsins um þennan málaflokk eins og er t.d. í jafnréttismálum.

Í þessu frv. er verið að stækka barnaverndarumdæmin og lagt til að ekki skuli vera minna en 1.500 manns á bak við hvert barnaverndarumdæmi og held ég að það geti verið af hinu góða. Annars ætti það kannski að vera matsatriði hversu stórt umdæmi það skuli vera.

Ég vil gera að umtalsefni ákvæðið um afskipti barnaverndarnefnda af þunguðum konum og tek undir að hér gæti verið um nokkuð grátt svæði að ræða. Þetta er nokkuð sem við þurfum að skoða í félmn. þegar málið kemur þangað að lokinni umræðunni. Auðvitað er alltaf matsatriði hvenær kona er að stofna heilsu eða lífi ófædds barns í hættu með líferni sínu. Það er alveg rétt, það getur verið matsatriði hverju sinni og er þáttur sem við þurfum að skoða.

Menn hafa aðeins gert forvarnir að umtalsefni og 12. gr. um forvarnir og fræðslu og aðbúnað barna. Vissulega tek ég undir þær athugasemdir. Ég verð að segja eins og er að þegar við ræðum barnaverndarmál og aðbúnað barna, verðum við náttúrlega að horfa á þau mál í heild. Þess vegna langar mig aðeins í því tilliti að taka til umræðu atriði sem mér finnst dálítið umhugsunarvert og það er staða barna foreldra sem hafa úr litlu að spila og hvernig þau líða fyrir þá stöðu. Ég verð að segja það að það verður að vera unnt að gera foreldrum kleift að halda meginmarkmiðin í lögum eins og barnaverndarlögum.

Það sem ég er að gera að umtalsefni er sú staðreynd að efnahagur foreldra er farinn að hafa áhrif á heilsufar barna. Þar vil ég vitna til aðstoðarlandlæknis en hann hefur bent nokkrum sinnum á að það hefur komið fram í skýrslum bæði á Norðurlöndunum og í Bretlandi að börn foreldra sem búa við fátækt líða heilsufarslega vegna þess. Eftir að umræðan varð allmikil hér á landi um stöðu öryrkja og fjölskyldna þeirra og afkomu var gerð könnun á því hér á landi hvernig væri háttað heilsufari þeirra barna sem ættu öryrkja fyrir foreldra, annaðhvort bæði eða annað. Það var athugað hvort hlutfallslegur munur væri á algengi sállíkamlegra einkenna barna, eftir því hvort foreldri, annað eða bæði, væri í hópi öryrkja.

Verulegur tölfræðilegur marktækur munur kom fram við þessa könnun og eru þessi sállíkamlegu einkenni um þrefalt algengari meðal barna öryrkja. Kannski er ekki hægt að fullyrða hvaða orsök liggur þarna að baki en Matthías Halldórsson aðstoðarlandlæknir telur að skýringin geti verið það óöryggi sem börnin búa við vegna veikinda og fötlunar foreldranna og bágrar fjárhagsstöðu foreldranna. Hann bendir einmitt á að það geti verið þjóðfélaginu dýrkeypt til lengri tíma að skera t.d. bætur öryrkja þannig við nögl að þeir geti ekki séð börnum sínum almennilega farborða og veitt þeim það sem önnur börn fá í samfélaginu.

Þetta finnst mér vera nokkuð sem við eigum kannski að huga aðeins að þegar við erum að ræða um barnavernd. Því það hefur sýnt sig að börn sem líða í uppvextinum vegna þessara atriða hafa oft lent í ógöngum seinna í lífinu, hvað þá þegar heilsufar þeirra er verra eins og komið hefur fram í þessari könnun.

Þetta vildi ég nefna sérstaklega hvað varðar forvarnir og aðbúnað barna.

Í 36. gr. frv. er gert ráð fyrir að Barnaverndarstofa eigi rétt á upplýsingum úr sakaskrá um menn sem hlotið hafa refsidóma fyrir brot á hegningarlögum ef það beinist gegn einstaklingi yngri en 18 ára. Síðan er vísað til þess að þetta eigi við um ýmsa aðila, leikskóla og yfirmenn skóla, íþrótta- og tómstundamiðstöðvar o.s.frv., það er talið hér upp. Þetta er nokkuð sem við þurfum að skoða nánar í félmn. og þurfum að fá fulltrúa frá Persónuvernd til að fara yfir þessa þætti með okkur því að þetta eru viðkvæm mál og kannski ekki ástæða til þess að láta einhvern fjölda manns fara ofan í þessa þætti.

Ég vil líka gera aðeins að umtalsefni hér að það þarf að taka sérstaklega á því þegar um starfsmenn á stofnunum fyrir fötluð börn er að ræða eða þegar fötluð börn eru annars vegar. Við vitum alveg hvernig það hefur verið og því miður hefur verið þó nokkuð um það að starfsmenn, sem hafa komist á sakaskrá vegna brota gagnvart börnum, hafa farið að starfa á stofnunum þar sem fötluð börn eru. Vissulega þarf að vera hægt að skoða og fá upplýsingar um þessa einstaklinga þegar þessi börn eru annars vegar og við þurfum kannski að hnykkja frekar á því.

Það er farið ágætlega yfir það í greinargerðinni með frv. hvernig þessi ákvæði breytast lið fyrir lið frá gildandi lögum. Talað er um málsmeðferð fyrir barnverndarnefnd, úrskurðarvald, málsmeðferð fyrir dómi og síðan er gert ráð fyrir að barn sem náð hefur 15 ára aldri geti verið aðili máls. Síðan er komið inn á réttindi þess til að hafa aðgang að gögnum, tjá sig á sama hátt og foreldrarnir og eiga rétt á aðstoð lögmanns, auk þess sem heimilt er að skipa því talsmann. Ég vil einmitt í því tilviki gera það að umtalsefni og get ég tekið undir það, en við þingmenn Samfylkingarinnar höfum einmitt lagt ítrekað fram á þinginu frv. þar sem lagt er til að börnum sé skipaður talsmaður í skilnaðarmálum þannig að hagsmunum þeirra sé sem best fyrir komið. Varðandi talsmann barns sem er aðili máls þá er einmitt vísað til laganna á Norðurlöndum og sérstaklega til Noregs en þar er einmitt sams konar ákvæði og við höfum lagt til varðandi skilnaðarmálin og réttindi barna til umgengni við báða foreldra sína sem er fyrirmyndin á Norðurlöndunum og þá aðallega í Noregi.

Herra forseti. Ég held ég sé búin að fara nokkurn veginn yfir þá þætti sem ég vildi gera að umtalsefni og tek undir ýmsar athugasemdir sem hv. þm. Guðrún Ögmundsdóttir hefur gert í máli sínu á undan mér sem við munum auðvitað fara betur yfir í nefndinni þegar málið kemur þangað og læt því máli mínu lokið að sinni.