Barnaverndarlög

Þriðjudaginn 27. mars 2001, kl. 16:18:41 (6033)

2001-03-27 16:18:41# 126. lþ. 99.2 fundur 572. mál: #A barnaverndarlög# (heildarlög) frv., SoG
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 126. lþ.

[16:18]

Soffía Gísladóttir:

Herra forseti. Hér er til umfjöllunar frv. til barnaverndarlaga sem lagt er fram af hæstv. félmrh. Frv. er mjög vandað og hefur verið unnið að því um margra mánaða skeið af fagfólki. Það er mjög vel fram sett fyrir utan örfá atriði sem ég vil koma hér að og vænti þess að verði skoðuð frekar í félmn.

Áður en ég hef mál mitt um frv. vil ég koma aðeins inn á tilkynningarskylduna sem hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir kom að hér áðan. Í minni sveit, Þingeyjarsýslu, hefur það verið gert til nokkurra ára að kynna störf barnaverndarnefnda árlega. Störf nefndanna eru kynnt með því að boða til fundar þá sem starfa með ungmennum. Farið er víða í skóla, bæði í Norður- og Suður-Þingeyjarsýslu, til að kynna störf nefndanna, m.a. þessa tilkynningarskyldu almennings. Eins hefur verið skrifað í blöð á svæðinu til að minna á tilkynningarskylduna. Umræða um barnaverndarstarf er þar af leiðandi tiltölulega opin og hefur verið þannig undanfarin ár. Þetta tel ég mjög góða leið til að kynna störf barnaverndarnefnda. Störf þeirra hafa verið misskilin um mjög langt skeið. Ýmist eru barnaverndarnefndir sakaðar um að vinna ekki vinnuna sína eða sakaðar um að vera að hnýsast í einkamál einstaklinga. Með því að hafa störf nefndanna upplýst, þ.e. eftir hvaða lögum og eftir hvaða reglugerðum þær vinna og hvernig starfshættir þeirra eru, þá tel ég að skilningur almennings aukist.

Ég ætla mér hins vegar að fara örlítið yfir þetta frv. Í upphafi vil ég fjalla í samhengi um 10. gr., 12. gr. og 14. gr.

Í 10. gr. er kveðið á um að fámennari sveitarfélög skuli hafa samvinnu við önnur sveitarfélög um kosningu barnaverndarnefnda og samanlagður íbúafjöldi sveitarfélaga að baki hverri barnaverndarnefnd skuli ekki vera undir 1.500 íbúum. Þetta er mjög mikilvægt ákvæði. Við erum með barnaverndarnefndir í dag sem þjóna frá 70 íbúum upp í stærri sveitarfélög. Þær geta þó þjónað allt niður í 70 íbúum og það er erfitt að vinna í umhverfi þar sem fáir einstaklingar eru á bak við. Hér er því gerð mjög mikilvæg breyting.

Í 14. gr. er talað um að barnaverndarnefnd skuli ráða sérhæft starfslið, eða tryggja sér aðgang að viðeigandi sérþekkingu með öðrum hætti, með leyfi forseta:

,,Skal við það miðað að hægt sé að veita foreldrum, stofnunum og öðrum er annast uppeldi viðhlítandi ráðgjöf, fræðslu og leiðbeiningar samkvæmt lögum þessum.``

Þetta er í samhengi við 12. gr. þar sem kannski vantar ákvæði um forvarnir, eins og hér hefur komið fram. Með því að barnaverndarnefndir ráði sér sérhæft starfslið þá er um leið verið að tryggja að forvarnastarf eigi sér stað. Í þeim nefndum sem starfa í dag með fáa íbúa á bak við sig eru starfsmenn oftast ráðnir í ákveðin verkefni. Starfsmenn eru ráðnir til að sinna ákveðnu broti, ákveðnu tilteknu vandamáli en þeir fara þegar því starfi lýkur án þess að taka tillit til félagslegra þátta og forvarnaþáttarins, sem er mjög mikilvægur í barnaverndarstarfinu.

Með því að ráða sérhæft starfslið til nefndanna, eins og þær verða með þessum lögum, tryggjum við um leið mjög upplýst forvarnastarf og að almenningi sé kunnugt um tilkynningarskylduna. Þessar þrjár greinar eru þannig í samhengi, þ.e. ef við komum forvarnaþættinum skýrt að í 12. gr.

Í 14. gr. kemur fram að barnaverndarnefnd sé heimilt að semja við stofnanir, svo sem á sviði félags-, skóla- og heilbrigðisþjónustu, um sameiginlegt starfsmannahald og sérfræðiþjónustu. Ég vil koma því að að sveitarfélög víða um land hafa nú þegar sameinast um barnaverndarnefndir og starfsmenn. Af því að ég talaði um mitt umdæmi áðan, Þingeyjarsýslur, þá vil ég koma því á framfæri að barnaverndarstarfið er unnið hjá Félags- og skólaþjónustu Þingeyinga, sem sinnir félagsþjónustu, skólaþjónustu og málefnum fatlaðra. Það hentar mjög vel þeirri starfsemi að sinna barnavernd þar sem þessir þrír þættir, félagsþjónusta, skólaþjónusta og málefni fatlaðra, koma mjög náið að barnavernd.

Í 15. gr. er fjallað um að barnaverndarnefnd í umdæmi þar sem barn á lögheimili eigi úrlausn um málefni þess. Ég vil gjarnan taka þessa grein til umfjöllunar. Það er mikilvægt að barnaverndarnefnd þar sem barn á lögheimili starfi að úrlausn um málefni þess. Við höfum dæmi um að börn hafi fylgt lögheimili foreldra sinna. Við höfum séð börn flytja með foreldrum sínum frá einum stað til annars. Við höfum líka séð börn skilin eftir á vissum stöðum meðan foreldrar þeirra hafa haldið áfram að flytja frá einum stað til annars. Afleiðingin hefur verið sú að mál barnsins sem skilið var eftir flyst frá einni nefnd til annarrar, kannski með tveggja, þriggja eða jafnvel fjögurra mánaða millibili. Það er mjög erfitt að henda reiður á þannig málum. Lítil sveitarfélög geta haft mjög mikinn kostnað, t.d. af vistun barns í sveitarfélagi, langt frá því sveitarfélagi sem lögheimili þess er. Þessi mál hefur verið mjög erfitt að höndla.

Nú kann fólk að spyrja: Eiga börn ekki að eiga lögheimili þar sem foreldrar þeirra búa eða eru með lögheimili? Í umfjöllun um 15. gr. er fjallað um lögheimilislögin. Þar er m.a. sagt, með leyfi forseta:

,,Búi barnið hjá hvorugu foreldra sinna á það lögheimili þar sem það hefur fasta búsetu. Þykir heppilegt að miða við lögheimili barns þegar valdsvið barnaverndarnefndar er ákvarðað. Með þeim hætti ætti sjaldnast að leika vafi á hvaða barnaverndarnefnd á með réttu að fjalla um mál.``

Þetta er mikilvæg grein þar sem sett hefur verið inn ákvæði sem á eftir að skapa mun þægilegra starfsumhverfi fyrir barnaverndarnefndir varðandi vistunarmál.

Ég kýs að koma hér að 30. gr., um úrræði barnaverndarnefndar vegna þungaðra kvenna. Það hefur verið rætt um þessa grein hér í dag. Ég set spurningarmerki við þessa grein eins og aðrir hafa gert. Ég spyr mig hvort hér sé um of mikla forsjárhyggju að ræða og hvort þungaðar konur verði settar undir smásjá í augum almennings og annarra ef þessi grein fær að vera í friði í frv. Ég tel að það sé mjög hættulegt. Þarna er vissulega verið að tala um könnun máls en könnun máls er mjög viðkvæm. Það er mjög viðkvæmt fyrir einstakling þegar barnaverndarnefnd fer í könnun á högum hans. Ég spyr hvort við séum að ganga of langt í þessari grein og með því að taka sérstaklega út úrræði barnaverndarnefnda vegna þungaðra kvenna. Ég tel að félmn. ætti að skoða þessa grein sérstaklega vel.

Að lokum vil ég svo fjalla um 36. gr., um upplýsingar úr sakaskrá. Það tengist að einhverju leyti umræðunni frá því fyrr í dag, utandagskrárumræðunni um vændi. Þar var m.a. komið inn á barnavændi, sem snertir jú barnaníðinga. Í 36. gr. segir, með leyfi forseta:

,,Barnaverndarstofa á rétt til upplýsinga úr sakaskrá um menn sem hlotið hafa refsidóm fyrir brot á ákvæðum XXII. kafla almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, þegar brot beinist gegn einstaklingi sem ekki hefur náð 18 ára aldri. Ríkissaksóknari skal láta stofunni í té afrit dóma ef hún óskar þess. Barnaverndarstofa getur tilkynnt viðkomandi barnaverndarnefnd flytji maður sem veruleg hætta er talin stafa af í umdæmi hennar. Ef rík barnaverndarsjónarmið mæla með getur barnaverndarnefnd gert öðrum viðvart, að fengnu samþykki Barnaverndarstofu.``

Ég tel þetta vera mjög mikilvægt ákvæði. Það er ljóst samkvæmt erlendum könnunum að það er mjög erfitt að veita barnaníðingum meðferð, bæði sálfræðimeðferð og lyfjameðferð. Þeir koma til með að stunda fíkn sína þó að þeir hafi setið inni og fengið dóm. Ég tel því mikilvægt að möguleiki sé fyrir Barnaverndarstofu að fylgjast með mönnum sem hafa slíka dóma á bakinu og jafnframt að Barnaverndarstofa geti tilkynnt viðkomandi barnaverndarnefnd, flytji maður sem veruleg hætta stafar af, í umdæmi hennar. Þarna erum við að tryggja visst öryggi gagnvart börnum þessa lands.

Eins og ég sagði í upphafi er frv. mjög vandað. Ég hef fylgst með starfi nefndarinnar sem samdi þetta frv. og fór yfir gömlu barnaverndarlögin. Ég er ánægð með að þetta skuli vera komið fyrir þingið. Ég vænti þess að þetta verði unnið vel í félmn. og verði svo síðan að lögum.