Barnaverndarlög

Þriðjudaginn 27. mars 2001, kl. 16:30:19 (6034)

2001-03-27 16:30:19# 126. lþ. 99.2 fundur 572. mál: #A barnaverndarlög# (heildarlög) frv., RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 126. lþ.

[16:30]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég get tekið undir flest af því sem kom fram í máli hv. þm. Soffíu Gísladóttur, hún var með gott innlegg. Það eru þunguðu konurnar og afskipti af þeim sem ég er að bregðast við og ég virði þau sjónarmið sem hafa verið sett fram í dag. En auðvitað er þversögn í því t.d. þegar þurft hefur að hafa afskipti af barni, jafnvel fjarlægja það vegna framkomu eða hegðunar, afskiptaleysis eða uppeldisskorts eða einhvers enn þá verra af hálfu forsjáraðila, t.d. móður, að ef slík móðir er ófrísk að eiga þá að bíða eftir því hvernig verði nú með næsta barn ef engar úrbætur hafa orðið hjá henni. Það er ákveðin þversögn í því að vera með barnavernd gagnvart barni sem er þegar fætt og svo eigi bara að bíða og sjá til.

Auðvitað höfum við konur sérstaklega ákveðna samkennd hver með annarri og trúum því alltaf að þessir hlutir lagist. Ég skoðaði þetta meira að segja út frá því sjónarmiði af því að ég hef flutt hér nokkrum sinnum tillögu um að merkja áfengisflöskur um hve alvarlegt það getur verið að neyta áfengis á meðgöngu og ég hef nýverið fengið nýjar upplýsingar og hyggst leggja það mál fram enn á ný. Vandinn er sá að slíkt mál fer inn í viðskiptaumhverfið í efh.- og viðskn. og viðskiptaaðilarnir stoppa það. Þá skoðaði ég hvort það gæti átt heima hér og komst að þeirri niðurstöðu að það væri ekki.

En svo sannarlega er í mörg horn að líta varðandi það hvernig konur fara með sig sjálfar meðan þær bera barn undir belti og það er ekki einkamál að skadda barn fyrir lífstíð meðan það er í móðurkviði.