Barnaverndarlög

Þriðjudaginn 27. mars 2001, kl. 16:44:00 (6037)

2001-03-27 16:44:00# 126. lþ. 99.2 fundur 572. mál: #A barnaverndarlög# (heildarlög) frv., PHB
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 126. lþ.

[16:44]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Það frv. sem við ræðum í dag er afskaplega vel unnið eins og hér hefur komið fram og vonandi á margan hátt til bóta. Sá málaflokkur sem það fjallar um er mjög viðkvæmur, hann er mjög dulinn eðli máls samkvæmt og í rauninni veit enginn hvað gerist og á ekki að vita hvað er að gerast í barnaverndarmálum nema það snerti menn beint, þá kynnast þeir því.

Oft eru aðgerðir barnaverndarnefnda og löggjafans og stjórnvalds mjög afdrifaríkar fyrir þær fjölskyldur sem um er að ræða. Þetta eru mjög erfið mál og oft er verið að leysa enn erfiðari vanda. Ég vænti þess að hv. félmn., þar sem ég á sæti, gefi sér góðan tíma til að átta sig á afleiðingum þessa frv. sem er hérna í formi heillar bókar, yfir hundrað síður, þannig að ég reikna ekki með því að nokkur hv. þm. hafi áttað sig í hörgul á þeim málum sem hér er tekið á.

[16:45]

Í umræðunni hefur verið fjallað um ýmis mál sem eru nýmæli, t.d. eftirlit með þunguðum konum og það að skipa barni fulltrúa, og eins hefur verið fjallað um það að menn séu leystir undan trúnaði sem komast á snoðir um slík mál. Öll þessi atriði nema kannski umboðsmaður barns eru mjög viðkvæm og getið slegið til baka.

Til dæmis hefur það sýnt sig að þegar prestar í vissum löndum hafa verið leystir undan trúnaði vegna skrifta og annars slíks í kaþólskum löndum hefur það orðið til þess að menn hreinlega skrifta ekki. Þá getur enginn talið þeim hughvarf um það sem þeir ætla sér að gera þannig að það getur verið neikvætt að aflétta trúnaði. Sama getur gerst með lækna. Ef sjúklingurinn veit að það sem hann segir er ekki bundið trúnaði þá segir hann það kannski ekki þannig að þetta getur slegið í báðar áttir. Hins vegar átta menn sig á því að það er náttúrlega voðalegur hlutur ef einhver er með þá vitneskju á grundvelli trúnaðar, sem hann má ekki segja frá, þannig að þarna stangast á allveruleg sjónarmið.

Eins er með eftirlit með þunguðum konum. Við erum að reyna að hvetja konur til að fara í mæðraeftirlit og annað slíkt og ef þær eiga á hættu að stjórnvaldið fari að skipta sér af þeim sem barnaverndarmáli, ef einhverjum sýnist að þær fari ógætilega með heilsu sína og ófædds barns, þá er hætt við því að þær fari ekki í eftirlit. Þá er betur heima setið en af stað farið. Það er því margt í þessu sem þarf að skoða mjög grannt og vendilega og sérstaklega þarf hv. félmn. að átta sig á því hvílíkt vald hún gefur í hendur embættismanna til að ráðskast með örlög fjölskyldna og hvort skoðanir embættismannanna, t.d. varðandi kynforeldra, samband barns og kynforeldra --- sem ég hef stundum orðið var við að embættismenn líta á sem einhverja heilaga taug en ég er ekki á sömu skoðun --- að það geti litað afstöðu þeirra til t.d. umgengnismála og geti jafnvel orðið til þess að þeir þvinga fram samskipti sem enginn hefur hag af. Ég vil rétt aðeins geta þessara atriða, leggja áherslu á það hvað þetta er veigamikið mál og afdrifaríkt. Ég skora á hv. nefnd að gefa þessu góðan gaum og hlusta á þá aðila sem framfylgja þessum lögum, sem hafa framfylgt þeim hingað til, hvað þeir sjá breytast með þessum nýju lögum. Einnig þyrfti að skoða, ef hægt er, sjónarmið þolenda, þ.e. þeirra sem hafa verið sviptir forræði, hvort hægt sé að skoða sjónarmið barna sem hafa verið svipt foreldrum sínum. Það er kannski öllu erfiðara en vissulega er það því miður oft og tíðum niðurstaðan að stjórnvöld neyðast til að taka börn frá foreldrum sínum og það er oft og tíðum ekki síður erfitt fyrir börnin en foreldrana.