Barnaverndarlög

Þriðjudaginn 27. mars 2001, kl. 17:05:25 (6041)

2001-03-27 17:05:25# 126. lþ. 99.2 fundur 572. mál: #A barnaverndarlög# (heildarlög) frv., RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 126. lþ.

[17:05]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þá ágætu umræðu sem hér hefur farið fram og er ekkert að hnotabítast við hæstv. ráðherra um þessi mál. Þó vil ég segja, herra forseti, að ef það er svo að barn í Kópavogi er fóstrað í öðru sveitarfélagi, við skulum segja á Selfossi, og ef það á að rukka Kópavog um eitthvað varðandi barnið, þá er það eins og var með gömlu sveitfestina sem allir lögðu mjög mikla áherslu á að afnema með lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga þegar þau voru sett. Ég er mjög andvíg því ef þessi hugsun er að koma inn aftur.

Þess vegna vil ég koma með ábendingar við umræðuna þannig að félmn. skoði það sem hefur komið til umræðu í þingsalnum. Annaðhvort kemst hún að þeirri niðurstöðu að þetta sé gott eða það þurfi kannski að endurskoða og það er það sem ég legg til að verði gert. Ég hef ekki sérstaklega mótaðar skoðanir á því sem ég hef sett fram spurningar um en finnst mjög mikilvæg þau skoðanaskipti sem hér hafa átt sér stað í dag og tek þar af leiðandi undir orð hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur og fleiri sem hafa orðað það svo að þessi umræða hefur verið góð og fagleg. Það er ógjarnan sem það hefur verið þannig. Þegar við höfum verið að ræða uppeldismál, fræðslumál og ýmis þeirra mála sem skipta nánasta umhverfi fjölskyldunnar mjög miklu máli þá finnst mér oft að umræðan sé feikilega fagleg á málefnalegum nótum og átakalaus. Það þýðir ekki að skilaboðin séu að nokkru leyti verri en oft endranær þegar meiri hávaði er á ferð.