Réttarstaða starfsmanna sem starfa tímabundið á Íslandi

Þriðjudaginn 27. mars 2001, kl. 17:08:55 (6043)

2001-03-27 17:08:55# 126. lþ. 99.3 fundur 573. mál: #A útsendir starfsmenn# (EES-reglur) frv., félmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 126. lþ.

[17:08]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um útsenda starfsmenn. Rétt er að gera grein fyrir því fyrst hvað útsendur starfsmaður er samkvæmt þessu frv. því að ekki er víst að allir kunni vel við þetta orð og ef menn gætu fundið eitthvað annað betra, þá væri það meinalaust frá minni hálfu.

Með útsendum starfsmönnum er í lögum þessum átt við starfsmann sem starfar að jafnaði utan Íslands en er sendur tímabundið til starfa hér á landi. Þetta er sem sagt frv. sem á að tryggja réttindi erlendra starfsmanna sem koma á vegum húsbænda sinna eða fyrirtækja sinna í öðrum löndum og til vinnu í skamman tíma. Reyndar þarf sá tími að vera mun lengri en átta dagar. En þá á þessi erlendi starfsmaður að njóta réttinda eins og hann væri íslenskur meðan hann er hér að störfum, þ.e. það þarf að borga honum samkvæmt íslenskum kjarasamningum og það verður að fara eftir lögum um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda að því er varðar lágmarkslaun, yfirvinnugreiðslur, réttindi til orlofs, hámarksvinnutíma og lágmarkshvíldartíma. Það verður að fara eftir lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Það verður að fara eftir lögunum um orlof, fara eftir lögunum um eftirlit með skipum ef það á við eða lögum um loftferðir ef svo vill verkast, fæðingar- og foreldraorlof og um jafna stöðu og jafnan rétt karla og kvenna auk annarra ákvæða um bann við mismunun.

Reynt hefur verið að ganga eftir því þegar við höfum veitt atvinnuleyfi að það verði að borga hinum erlendu starfsmönnum eftir íslenskum töxtum. Menn muna e.t.v. eftir miklum átökum sem urðu út af rússnesku fyrirtæki sem var að leggja rafmagnslínu á Suðurlandi, Technopromexport hét það og var verktaki við lagningu línunnar. Grunur kom upp um að það fyrirtæki færi ekki forsvaranlega með starfsmenn sína. Fyrirtækið gaf rangar upplýsingar og reyndi að villa um fyrir okkur og út af því varð leiðindamál. Ef þetta frv. hefði verið komið í lög, orðið að lögum er það gerðist, þá hefðum við staðið betur að vígi að knýja fyrirtækið til að haga sér eins og siðuðu fyrirtæki ber að gera.

Ég vona sem sagt að þetta litla frv. sé réttarbót fyrir þá tilteknu erlendu starfsmenn sem koma til vinnu tímabundið og ég legg til að það verði sent til hv. félmn. til athugunar.