Viðskiptabankar og sparisjóðir

Þriðjudaginn 27. mars 2001, kl. 17:31:30 (6048)

2001-03-27 17:31:30# 126. lþ. 99.4 fundur 567. mál: #A viðskiptabankar og sparisjóðir# (breyting sparisjóðs í hlutafélag) frv., ÁRÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 126. lþ.

[17:31]

Árni R. Árnason (andsvar):

Herra forseti. Við skulum gæta þess varðandi sparisjóð sem gerist hlutafélag að fleiri raddir verða þá uppi en þeirra sem starfa að stjórn sjálfseignarstofnunarinnar. Ég verð að viðurkenna að ég held að þeir hluthafar muni gæta arðsemissjónarmiða, þeir vilji fá arð af sínu fé.

Ljóst er af ákvæðunum sem koma fram í frv., og ég hygg að hv. þm. geti lesið þau jafn vel og ég og dregið af þeim ályktanir, að ekki er gert ráð fyrir að sjálfseignarstofnun starfi eingöngu á arðsemissjónarmiðum. Hún á að veita styrki, hún á að taka fjárhagslegan þátt í ákveðinni starfsemi á svæðinu. Hún getur ákveðið það. Að öðru leyti eiga að gilda um hana almenn lög um sjálfseignarstofnanir sem taka þátt í atvinnustarfsemi.

Ég tel, herra forseti, að við getum ekkert ályktað um það eftir hvaða öðrum sjónarmiðum en arðsemissjónarmiðum sú stofnun muni starfa, nema þá þeim sem koma fram í frv. Ég geri mönnum ekki upp það að þeir muni beita einhverjum öðrum sjónarmiðum en þeim sem eðlileg eru, sem eru arðsemissjónarmið til að fá sem mest fjármagn til þeirra hluta sem stofnunin eða fyrirbærið á að taka þátt í og á að veita fjármuni til. Það er eðlilegur tilgangur og það er í sjálfu sér arðsemissjónarmið að hún eigi að taka þátt í uppbyggingu sparisjóðsins áfram. Það er fullkomið arðsemissjónarmið, hv. þm.