Viðskiptabankar og sparisjóðir

Þriðjudaginn 27. mars 2001, kl. 17:35:08 (6050)

2001-03-27 17:35:08# 126. lþ. 99.4 fundur 567. mál: #A viðskiptabankar og sparisjóðir# (breyting sparisjóðs í hlutafélag) frv., ÁRÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 126. lþ.

[17:35]

Árni R. Árnason (andsvar):

Herra forseti. Ég mun enn ekki fást til þess að álykta um sjónarmið annarra einhvern tíma í óráðinni framtíð. Ég er enn þá sannfærður um að það sé nægilega mikið gott í fólki til að það geti forðast freistingar þegar það kemur saman. Ég hygg að þó að alvara málsins kunni að vera sú í skoðunum hv. þm. að einhverjir kunni að komast að með annarlegar gerðir eða annarleg sjónarmið, þá séu hinir nægilega margir.

Ég hygg að það sé rétt sem hann er að álykta að kunni að gerast gerist helst þar sem fáir eru. Ég hygg að staðreyndir, til að mynda þær sem við ræddum fyrr í dag á hinu háa Alþingi, lýsi því best.

Þess verður að geta, herra forseti, að stofnfjárbréfaeigendur eða stofnfjárhafar hafa á seinni árum, nær allan síðasta áratug, fengið tryggan arð, 10%, fengið verðtryggingu á höfuðstól stofnfjárbréfanna burt séð frá afkomu sparisjóðsins. Hafi afkoman ekki risið undir þessu, á hverjum hefur það þá bitnað? Á þeim aðilanum sem í framtíðinni á að verða sjálfseignarstofnun. Fyrir hana talaði enginn þegar slíkar ákvarðanir voru teknar, enginn. Það fyrirkomulag sem hér er fitjað upp á mundi tryggja að hún hefði þá a.m.k. talsmann, hv. þm.