Viðskiptabankar og sparisjóðir

Þriðjudaginn 27. mars 2001, kl. 19:01:05 (6065)

2001-03-27 19:01:05# 126. lþ. 99.4 fundur 567. mál: #A viðskiptabankar og sparisjóðir# (breyting sparisjóðs í hlutafélag) frv., viðskrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 126. lþ.

[19:01]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að hv. þm. sé ansi hugmyndaríkur í þessu sambandi, og hægt svo sem að láta sér detta ýmislegt í hug að geti gerst. Ég vil fyrst taka fram að ekki er þar með sagt að allir sparisjóðir fari þá leið að breyta sér í hlutafélög og reyndar tel ég að það verði tiltölulega fáir til að byrja með. En leikurinn er gerður til þess að gefa þeim þennan möguleika.

Það sem hv. þm. er að tala um og telur að geti leitt af sér spillingu og jafnvel óstjórn, það tel ég ekki líklegt. Mér þykir leitt ef ég hef misskilið ræðu hans í gær, en ég veit að það er rétt sem hann heldur fram að ekki er hægt að framselja stofnfé nema með samþykki stjórnar. En það er þó verið að gera þetta opnara og mögulegt miðað við hvernig lögin eru í dag því að það er nánast þannig að ekki er annar möguleiki en falla frá eða flytja burt af svæðinu og það er mjög í líkingu við það sem við þekkjum í lögum um samvinnufélög.

En að láta hugmyndaflugið leika lausum hala og láta sér detta í hug hluti í líkingu við það sem hv. þm. nefnir, mér finnst slíkt raunverulega ómögulegt.