Viðskiptabankar og sparisjóðir

Þriðjudaginn 27. mars 2001, kl. 19:03:48 (6067)

2001-03-27 19:03:48# 126. lþ. 99.4 fundur 567. mál: #A viðskiptabankar og sparisjóðir# (breyting sparisjóðs í hlutafélag) frv., GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 126. lþ.

[19:03]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Mér fannst satt að segja hálfþunnur þrettándinn hjá hæstv. ráðherra þegar hún kom að því að reyna að svara fyrirspurnum og athugasemdum okkar nokkurra þingmanna varðandi samsetningu stofnfjáreigenda, þau völd sem verða fest í sessi og í raun stóraukin með frv. Og þegar hún er spurð um hvort henni finnist eðlilegt að tiltölulega lítill hópur stofnfjáreigenda, sjálfvalinn sem fjölgar innan frá, eigi að hafa slík völd yfir þeim gífurlegu fjármunum sem í húfi eru, þá gagnspyr hæstv. ráðherra og segir: Ef ekki þeir, þá hverjir?

Ég kastaði því hér fram, herra forseti, hvort í þeim tilfellum væri þá svo mjög óeðlilegt að hið félagslega afl, hinir kjörnu fulltrúar í sveitarstjórnum héldu eftir sem áður áfram að hafa eitthvað um það að segja hvernig þessi kaup gerðust á eyrinni. Það var undir þeim formerkjum sem ég sagði það líka.

Ég vil einnig halda því til haga hvort það sé eitthvað sem mælir því mót --- og nú bið ég hæstv. ráðherra að leggja við hlustir --- að menn taki þessi skref í nokkrum áföngum og gefi sér til að mynda eitt, tvö ár í að opna þennan klúbb stofnfjáreigenda og gefa almenningi kost á að komast inn í þann klúbb og leggja fé, eins og gert er, til þess að vera með og að afloknum þessum tveimur árum, ef við gefum okkur að einhver þúsund eða jafnvel tugþúsundir Íslendinga vilji koma og taka þátt, geti menn farið að íhuga skref af þessum toga. Er eitthvað sem mælir gegn þeirri leið?

Með öðrum orðum. Ég árétta að ég hef áhyggjur af því að við séum að stefna í enn frekari miðstýringu en verið hefur og nóg er nú samt.