Viðskiptabankar og sparisjóðir

Þriðjudaginn 27. mars 2001, kl. 19:09:01 (6070)

2001-03-27 19:09:01# 126. lþ. 99.4 fundur 567. mál: #A viðskiptabankar og sparisjóðir# (breyting sparisjóðs í hlutafélag) frv., GÁS
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 126. lþ.

[19:09]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Ég hlýt að gera þá lágmarkskröfu í umræðu um alvarlegt mál af þeim toga sem hér um ræðir að hæstv. ráðherra a.m.k. reyni að ræða mál með málefnalega. Ég sá að hún hafði tekið saman nokkuð ítarlega punkta vegna þeirra ræðuhalda sem fram fóru í gær og var hér með skrifuð minnisblöð í þá veru en hún fór öllu hraðar yfir sögu þegar kom að ræðuhaldi dagsins í dag. Ég bið hæstv. ráðherra að gefa því gaum að við erum að ræða grafalvarlega hluti og þess vegna er mér heitt í hamsi og ég tek það ekkert létt, herra forseti, að menn ætli að ljúka umræðunni með ódýrum útúrsnúningum eins og þeim að einhver sérstakur áhugi sé í þessum sal að Alþingi kjósi stjórnir sparisjóðanna hringinn í kringum landið ellegar að hæstv. ráðherra hafi þau völd í hendi sér. Við höfum nóg af þeim og viljum ekki meir, þannig að ég bara bið um svar við þeirri einföldu spurningu hvort eitthvað mæli sérstaklega á móti því, herra forseti, í fyrsta lagi að fjölgað verði allverulega í hópi stofnfjáreigenda, og þær fjárhæðir sem að baki liggja hækki þannig umtalsvert og verði miklum mun stærri hluti af heildareign sparisjóðanna, hvort heldur um er að ræða fastar eignir þeirra ellegar eigið fé, þannig að öllu styrkari stoðum sé skotið undir þá aðila sem heita stofnfjáreigendur og hétu áður fyrr ábyrgðarmenn.

Mér er full alvara þegar ég spyr hvort eitthvað mæli sérstaklega gegn því að menn gefi sér 6, 8 eða 10 ár eða jafnvel 1--2 ár í að undirbyggja þennan hóp þannig að hann geti þá verið raunverulegur breiður málsvari eigenda bankans í þessu milliapparati sem setja á á stofn, sjálfseignarstofnun sem í mörgum tilfellum verður með 90--99% eignaraðild í sparisjóði. Mér er full alvara þegar ég spyr um þetta og ég óska eftir svari.