Steinsteypa til slitlagsgerðar

Miðvikudaginn 28. mars 2001, kl. 13:43:37 (6075)

2001-03-28 13:43:37# 126. lþ. 101.1 fundur 535. mál: #A steinsteypa til slitlagsgerðar# fsp. (til munnl.) frá samgrh., JÁ
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 126. lþ.

[13:43]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Ég held að það séu ekki ný tíðindi að það er dýrara að nota steinsteypu í slitlag en malbik. Það eru hins vegar önnur atriði sem koma þarna til líka sem þarf að skoða og ég tel að þau muni hafa vaxandi þýðingu.

Hér í borginni er t.d. orðin töluvert mikil mengun sem stafar m.a. af malbikinu, ekki síður en öðru, sem slitnar upp úr vegum og það er full ástæða til þess að taka þau atriði með í reikninginn. Auðvitað verður ekki notuð steinsteypa til slitlagsgerðar ef menn eru ekki tilbúnir að borga mismuninn. Það er dýrara. Það þarf heldur ekki allt of mikið af tilraunum. Það er nóg að skoða reynsluna af steyptum vegum og slitlögum í landinu. Víða liggur fyrir 30--40 ára reynsla hvað þetta varðar og það ætti að vera hægt að nýta sér hana.