Verð á mölun steinefna fyrir Vegagerðina

Miðvikudaginn 28. mars 2001, kl. 13:52:47 (6081)

2001-03-28 13:52:47# 126. lþ. 101.2 fundur 536. mál: #A verð á mölun steinefna fyrir Vegagerðina# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 126. lþ.

[13:52]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Spurt er:

,,Hvernig hefur verð á mölun steinefna þróast eftir að mölunarsamstæða Vegagerðarinnar var seld fyrir þremur árum og öll mölunarverkefni fyrir Vegagerðina voru boðin út?``

Ráðuneytið hefur átt viðræður við fulltrúa Vegagerðarinnar vegna þessarar fyrirspurnar. Ég byggi mitt svar á þeim upplýsingum sem þar hafa komið fram.

Samkvæmt upplýsingum Vegagerðarinnar hefur hún á undanförnum árum boðið út 400--600 þús. rúmmetra efnisvinnslu á hverju ári. Auk þess er hluti af unnu efni keyptur úr námum, einkum á suðvesturhluta landsins. Þessu til viðbótar er vinnsla á efni innifalin í mörgum stærri nýbyggingarverkum.

Vegagerðin rak einn mölunarflokk út árið 1997 en þá var flokkurinn lagður niður og tækin seld. Það ár kom tilboð frá sjö bjóðendum í mölunarverkefni. Þeim hefur heldur farið fjölgandi síðan og á síðasta ári gerðu níu aðilar tilboð í þessi verkefni og eiga sumir þeirra fleiri en eina vélasamstæðu til mölunar.

Verð á mölun steinefna er mjög breytilegt og verulega háð magni á hverjum stað ásamt því hvers konar efni á að vinna. Vegagerðin hefur ekki orðið vör við sérstakar breytingar á verði efnisvinnslu eftir að hún hætti sjálf rekstri malarsamstæðu. Þetta eru þær upplýsingar sem Vegagerðin hefur gefið ráðuneytinu.

Miðað við fjölda mölunarverktaka á markaðnum 1997 og þróunina síðan verður að telja að þarna ríki samkeppni sem ekki þurfi að hafa áhyggjur af. Af þeirri ástæðu er að sjálfsögðu ekki tilefni til þess að Vegagerðin standi í þessari starfsemi og engin áform eru um að hefja hana að nýju. Samkeppnin er nægjanlega mikil eins og hér hefur komið fram.