Verð á mölun steinefna fyrir Vegagerðina

Miðvikudaginn 28. mars 2001, kl. 13:55:14 (6082)

2001-03-28 13:55:14# 126. lþ. 101.2 fundur 536. mál: #A verð á mölun steinefna fyrir Vegagerðina# fsp. (til munnl.) frá samgrh., GE (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 126. lþ.

[13:55]

Gísli S. Einarsson:

Herra forseti. Í tilefni af þessari fyrirspurn vil ég lýsa því yfir að ég hef áhyggjur af þróun verðlags, ekki bara á mölun efna heldur í vegagerð og framkvæmdum við samgöngur. Þetta á við það sem hér er spurt um og marga fleiri þætti.

Mér er kunnugt um alvarlegar þrengingar hjá verktökum á þessu sviði sem virðast stafa af sífellt meiri undirboðum sem ég tel vera hættuleg. Af þessari ástæðu vil ég nota tækifærið og spyrja hvort einhvers staðar sé unnt að fá yfirlit yfir þróun einingaverðs á mismunandi verkum hjá Vegagerð, hvort sem það heitir mölun, undirbúningur, jarðvinna, yfirlagning eða annað. Ég hef áhyggjur af því sem er að gerast t.d. á veginum til Akraness um Hvalfjarðargöng, þar er vegurinn holóttur og slæmur eftir mjög skamman tíma. Getur verið að of mikill hraði sé á verkunum?