Verð á mölun steinefna fyrir Vegagerðina

Miðvikudaginn 28. mars 2001, kl. 13:57:56 (6084)

2001-03-28 13:57:56# 126. lþ. 101.2 fundur 536. mál: #A verð á mölun steinefna fyrir Vegagerðina# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 126. lþ.

[13:57]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Það er ástæða til þess að hafa áhyggjur af því ef svo er, eins og hv. þm. Gísli S. Einarsson segir, að þrengingar séu hjá verktökum. Hins vegar er hver þeirra að sjálfsögðu sinnar gæfu smiður ef svo má segja. Þeir gera tilboð á opnum markaði og ég hef ekki fengið vísbendingar um að þar væru einhver sérstök hættumerki. Það er eins og gengur, verk eru misjafnlega erfið. Tíðarfarið er stundum vont yfir veturinn og verktakar lenda í hremmingum vegna þess. Það er sá harði heimur sem verktakar í jarðvinnuverkum standa frammi fyrir, að þurfa að taka áhættu vegna tíðarfars og þróunar á vinnumarkaði o.s.frv. Þar er því í mörg horn að líta.

Þróun einingaverðs í tilboðum liggur að sjálfsögðu fyrir. Þetta er allt saman opið og liggur á borði hvert verðið er. Það ætti því að vera hægt að kynna sér það.

Ég efast um að of mikill hraði sé á verkum. Okkur finnst yfirleitt allt of hægt ganga, a.m.k. þegar við þingmennirnir tölum um vegaframkvæmdir. Hins vegar skiptir miklu máli að undirbúa verkin vel og vinna þá verkhluta sem viðkvæmastir eru á réttum árstíma.

Það er hárrétt sem fyrirspyrjandinn, hv. þm. Gunnar Birgisson, nefndi að það eru fáar malbikunarstöðvar. Ég sagði í umræðu, vegna hans orða hans fyrr á þinginu, að ég teldi líklegt og eðlilegt að skoðað verði hvort Vegagerðin hætti allri samkeppni á verktakamarkaði. Í mínum huga er það þróun sem hlýtur að teljast eðlileg.