Póstþjónusta

Miðvikudaginn 28. mars 2001, kl. 14:13:59 (6090)

2001-03-28 14:13:59# 126. lþ. 101.4 fundur 546. mál: #A póstþjónusta# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 126. lþ.

[14:13]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Póst- og fjarskiptastofnun hefur umsjón með framkvæmd póstmála hér á landi, sbr. lög nr. 110/1999. Meðal verkefna stofnunarinnar er að veita leyfi til póstþjónustu og hafa eftirlit með því að rekstrarleyfishafar uppfylli og virði skilyrði stofnunarinnar svo og aðrar kvaðir sem almennum heimildum og rekstrarleyfum fylgja. Íslandspóstur hefur fengið leyfi til rekstrar póstþjónustu, samanber leyfisbréf eins og hv. fyrirspyrjandi vitnaði til.

Sem svar við fyrstu spurningunni, en hún er um það hvenær settar verði ákveðnar gæðakröfur um grunnpóstþjónustu í landinu o.fl., er því til að svara að á vegum Póst- og fjarskiptastofnunar er nú unnið að mótun reglna sem munu taka á gæðakröfum í grunnþjónustu í landinu. Reglunum er m.a. ætlað að skilgreina hvar afgreiðslustaðir eigi að vera. Jafnframt verði tekið á atriðum eins og póstleynd, öryggismálum, þjálfun starfsfólks og fleiri atriðum eftir því sem ástæða er til. Þetta starf verður unnið samhliða endurskoðun póstlaga en stefnt er að því að leggja fram á Alþingi frv. þar að lútandi næsta haust.

[14:15]

Í öðru lagi er spurt hvaða skilgreindar kröfur séu gerðar o.s.frv. Svar mitt er að kröfur þær sem gerðar eru til þessa rekstrar koma fram í lögum um póstþjónustu og reglugerð um grunnpóstþjónustu, svo og í leyfisbréfi Íslandspósts hf. Samkvæmt 9. gr. leyfisbréfsins sem áður var minnst á skal leyfishafi ákveða fjölda afgreiðslustaða fyrir almenning og dreifing þeirra um landið skal vera í samræmi við reglugerð og markmið sem Póst- og fjarskiptastofnun setur til að tryggja aðgengi almennings að grunnpóstþjónustu.

Þessar reglur liggja ekki fyrir. Stofnunin fjallaði um þetta ákvæði 9. gr. á árinu 1997 þegar núgildandi rekstrarleyfi var undirbúið. Þá var fjöldi afgreiðslustaða talinn fullnægjandi en talið rétt að setja þetta ákvæði inn sem varnagla. Frá árinu 1998 hefur Íslandspóstur gert þjónustusamninga um allt land þar sem póstþjónusta hefur verið falin öðrum þjónustuaðilum svo sem bönkum, sparisjóðum og nú síðast kaupfélagi. Póst- og fjarskiptastofnun hefur ekki talið ástæðu til að hafast nokkuð að þar sem póstþjónustan hefur ekki verið lögð niður á viðkomandi stöðum heldur falin öðrum. Samkvæmt þjónustusamningum ábyrgjast verktakar að meðferð póstsendinga sé á hverjum tíma í samræmi við gildandi lög og reglur um póstþjónustu og rekstrarleyfi Íslandspósts hf.

Í þriðja lagi er spurt hver taki út og samþykki færslur póstafgreiðslna o.fl. Íslandspóstur tilkynnir jafnóðum Póst- og fjarskiptastofnun um þær breytingar sem fyrirhugaðar eru á afgreiðslustöðum fyrirtækisins ásamt upplýsingum um væntanlega samstarfsaðila. Ekki er um formlega úttekt að ræða. Samkvæmt upplýsingum frá Póst- og fjarskiptastofnun taldi stofnunin sig ekki hafa heimildir í lögum til að setja sig upp á móti hugmyndum Íslandspósts um að hagræða í rekstrinum þegar þær voru kynntar fyrir stofnuninni á sínum tíma, m.a. vegna markmiðs póstlaga um hagkvæma og virka póstþjónustu. Hefur verið lögð á það áhersla að þjónustustig haldist það sama. Í sumum tilvikum hefur það aukist, svo sem með lengri opnunartíma.

Í fjórða lagi er spurt um hvort ráðherra muni afturkalla lokun pósthúsa á Hofsósi o.fl. sem hv. fyrirspyrjandi hefur lesið upp. Fullyrt er af hálfu forsvarsmanna Íslandspósts hf. að engin breyting hafi orðið á móttöku og afhendingu sendinga á Hofsósi og í Varmahlíð. Sömu öryggiskröfur eru gerðar vegna póstsendinga. Starfsmaður Íslandspósts hf. á hvorum stað hefur fylgt starfseminni eftir hjá samstarfsaðilanum fyrsta mánuð samstarfsins. Haldin hafa verið námskeið með öllum starfsmönnum kaupfélagsins þar sem farið hefur verið ítarlega yfir alla þá þjónustu sem Íslandspósti hf. ber að veita og hvernig afgreiðslu skuli háttað. Allir starfsmenn kaupfélagsins hafa undirritað þagnarheitið eins og aðrir starfsmenn Íslandspósts hf.

Allar skráðar sendingar sem póstlagðar eru eða eru til afhendingar á Hofsósi og í Varmahlíð eru settar í læsta skápa frá Íslandspósti hf. Skáparnir eru ávallt lokaðir nema þegar verið er að setja í þá sendingar eða taka þær út. Þrátt fyrir þetta er ljóst að Póst- og fjarskiptastofnun mun fylgjast vel með þeirri þjónustu sem Íslandspóstur mun veita í Skagafirði eftir þessa breytingu. Ég mun undirstrika það í bréfi til stofnunarinnar.

Ef póstrekandi, í þessu tilviki Íslandspóstur, brýtur ákvæði starfsleyfisins eru eftirlitsúrræði og viðurlög í lögum um Póst- og fjarskiptastofnun, sbr. 5. gr. þeirra. Komi í ljós að farið sé á svig við lög og reglur um póstþjónustu mun að sjálfsögðu verða gripið til viðeigandi ráðstafana.