Póstþjónusta

Miðvikudaginn 28. mars 2001, kl. 14:23:50 (6095)

2001-03-28 14:23:50# 126. lþ. 101.4 fundur 546. mál: #A póstþjónusta# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi JB
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 126. lþ.

[14:23]

Fyrirspyrjandi (Jón Bjarnason):

Herra forseti. Ég þakka ráðherra fyrir svörin og hv. þm. fyrir þátttöku í umræðum um málið. Ég fagna því ef hæstv. ráðherra hyggst standa við það að ekki verði skerðing á þjónustu þessara póststöðva. Hins vegar harma ég að ekki skuli þegar hafa verið sett á fulla ferð í að skilgreina gæði þjónustunnar sem á að vera í boði. Eigi að bíða nýrra laga um póstþjónustu til að slík skilgreining fáist þá tel ég það algerlega óviðunandi.

Ég harma líka, herra forseti, að ekki hafi þegar farið fram úttekt af hálfu Póst- og fjarskiptastofnunar á þeirri þjónustu sem nú hefur verið breytt, ég nefni þar Skagafjörð þar sem póstþjónustan var flutt inn í bensínafgreiðslur og verslanir. Hið sama er fyrirhugað á Skagaströnd. Ég veit að bæði þingmenn og fulltrúar þessara landsvæða hafa komið á fund hæstv. ráðherra og óska eftir því að hann gerði sérstaka skoðun á því sem þarna væri að gerast. Ég man ekki betur en hann ætlaði að verða við því og skoða það.

Mér er líka kunnugt um að Póst- og fjarskiptastofnun hafi borist bréf frá heimaaðilum með óskum um að þessi þjónusta yrði tekin út og kannað hvort hún uppfyllti lög og reglur eins og tilskilið er. Þjónustukröfurnar eru því miður allt of loðnar og hægt að skjóta sér að einhverju leyti bak við þær. Þarna hafa ítrekað komið fram athugasemdir og óskir til hæstv. ráðherra og Póst- og fjarskiptastofnunar um að þetta verði tekið út. Hvers vegna í ósköpunum er þá ekki bara drifið í að skoða þetta? Þessi þjónusta hefur að mínu viti orðið mun lakari við þessar breytingar og því er eðlilegt að þeir sem þarna bera ábyrgðina og taka ekki alvarlega óskir og ábendingar um að gerð verði úttekt fái nú þegar úr því skorið hvort þjónustan sem í boði er uppfylli lög og reglur sem um hana gilda eins og hæstv. ráðherra hefur lýst yfir.