Brjóstastækkanir

Miðvikudaginn 28. mars 2001, kl. 14:38:17 (6101)

2001-03-28 14:38:17# 126. lþ. 101.5 fundur 539. mál: #A brjóstastækkanir# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., KolH
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 126. lþ.

[14:38]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Ég vil þakka hv. fyrirspyrjanda þessa fyrirspurn og taka undir orð síðasta ræðumanns, hv. þm. Þórunnar Sveinbjarnardóttur. En mig langar til að bæta örlitlu atriði inn í umræðuna. Það varðar upplýsingar og fræðslu til þeirra kvenna sem sækja um aðgerðir af þessu tagi. Nú hefur það komið fram í fjölmiðlum að lýtalæknarnir sjálfir láta viðkomandi konur hafa fræðsluefni eða upplýsingaefni. Það hefur verið gagnrýnt í fjölmiðlum að þetta efni sé af skornum skammti og alls ekki fullnægjandi upplýsingar varðandi aukaverkanir og áhættu af þessum aðgerðum.

Nú langar mig að spyrja hæstv. ráðherra: Er ekki rétt að veita landlækni það hlutverk að fræðsluefni sem konur sem leita eftir þessum aðgerðum fá í hendur sé unnið á vegum landlæknis þar sem við getum treyst því að allar upplýsingar komi fram og engin hlutdrægni geti komist að málinu?