Brjóstastækkanir

Miðvikudaginn 28. mars 2001, kl. 14:39:22 (6102)

2001-03-28 14:39:22# 126. lþ. 101.5 fundur 539. mál: #A brjóstastækkanir# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi KF
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 126. lþ.

[14:39]

Fyrirspyrjandi (Katrín Fjeldsted):

Herra forseti. Ég efast reyndar ekki um að þeir lýtalæknar sem gera þessar aðgerðir gefi ágætar upplýsingar en það er samt sem áður á ábyrgð heilbrigðisyfirvalda og það er traustvekjandi fyrir almenning í landinu að heilbrigðisyfirvöld gefi leiðbeiningar í sem flestum málum af þessu tagi. Ég fagna því að bæklingur landlæknis muni líta dagsins ljós fyrr en síðar.

Sílikon hefur verið bannað í brjóstafyllingum í Bandaríkjunum, Japan, Kanada og Frakklandi og að hluta til líka í Bretlandi frá því fyrir ári. Sagt er að fyllingarnar endist kannski í 69% tilvika innan við 10 ár. Það er samkvæmt nýlegri bandarískri rannsókn. Þegar við sjáum þessar tölur, að 200--250 aðgerðir af þessu tagi séu gerðar á Íslandi árlega --- það er eiginlega hærri tala en ég átti von á, ég verð að segja það --- og einkum þegar um frekar ungar konur er að ræða, þær eru að meðaltali 25--35 ára eins og fram kom í máli hæstv. heilbrrh., segir það manni kannski að sjálfsmynd ungra kvenna er oft brothætt. Reyndar sjálfsmynd ungra karlmanna gjarnan líka brothætt. En þegar 25 ára aldri er náð ætti flestum að vera ljóst að kynþokki byggist ekki á brjóstastærð heldur býr hann í heilabúinu og því sem það getur gefið frá sér.

En ég þakka hæstv. heilbrrh. innilega fyrir góð svör.