Náttúruverndaráætlun

Miðvikudaginn 28. mars 2001, kl. 14:51:38 (6108)

2001-03-28 14:51:38# 126. lþ. 101.6 fundur 548. mál: #A náttúruverndaráætlun# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., Fyrirspyrjandi ÞSveinb
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 126. lþ.

[14:51]

Fyrirspyrjandi (Þórunn Sveinbjarnardóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. umhvrh. svörin. Ég verð að segja eins og er að ég get ekki annað en dáðst að bjartsýni hæstv. umhvrh. því eftir að hafa kynnt mér þessi mál lítillega og nú er hún miklu betur inni í þeim en ég, vænti ég, þá sé ég ekki hvernig þessar 9 millj. kr. eiga að duga nema þegar á hólminn verður komið á haustþingi 2002, þá fáum við í hendurnar eitthvað sem er kannski ekki beinlínis áætlun, heldur líka tilmæli um meiri vinnu eða það sem hefur kannski ekki gefist tóm til að fara nógu gaumgæfilega ofan í, vegna þess að ekki hafi verið fjármunir til þess. En guð láti gott á vita. Það kemur í ljós og við munum auðvitað fylgjast með því í hv. umhvn. hvernig þessari vinnu mun vinda fram á næsta eina og hálfa ári.

Hins vegar get ég ekki annað en minnst aftur á samanburðinn við rammaáætlunina af því hann er svo sláandi, herra forseti. Hann segir okkur svo mikið um forgangsröðunina því við erum í raun ekki að tala um neina stórkostlegar upphæðir þó auðvitað megi gera mjög margt fyrir 9 millj. kr. En í samanburði við þá vinnu sem er verið að leggja í við að undirbúa nýtingu vatnsafls og jarðvarma sem er vissulega mjög mikilvæg vinna þá er a.m.k. í mínum huga gerð náttúruverndaráætlunar alveg jafnmikilvæg og ætti að fá sama sess. Og sessinn ræðst ekki síst af því hversu mikið fé ráðamenn láta til slíkra verkefna.