Vikurnám við Snæfellsjökul

Miðvikudaginn 28. mars 2001, kl. 14:59:09 (6111)

2001-03-28 14:59:09# 126. lþ. 101.8 fundur 561. mál: #A vikurnám við Snæfellsjökul# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., umhvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 126. lþ.

[14:59]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegur forseti. Í fyrsta lagi er spurt: ,,Hve mikill vikur var numinn við Snæfellsjökul á árunum 1999 og 2000?``

Því er til að svara að samkvæmt upplýsingum hlutaðeigandi fyrirtækis, Vikurvara ehf., var ekki numinn vikur á ásvæðinu 1999, en á árinu 2000 var numinn 7.480 m3 af vikri.

Í öðru lagi er spurt: ,,Er slíkt nám háð sérvinnsluleyfum, og ef svo er, hvaða leyfi lágu til grundvallar starfseminni?``

Umhvrn. er ekki leyfisveitandi í þessu tilviki. Landbrn. er skráður landeigandi að jörðinni þar sem efnistaka fer fram og telur efnistökuna ekki vera háða sérvinnsluleyfi.

Í þriðja lagi er spurt: ,,Hefur farið fram umhverfismat á námuvinnslunni við Jökulinn?``

Því er til að svara að með bréfi Nesvikurs ehf. til Skipulagsstofnunar 21. okt. 1998 var tilkynnt mat á umhverfisáhrifum vikurnáms á Harðbalasvæði og á Jökulhálsi við Snæfellsjökul í samræmi við lög um mat á umhverfisáhrifum, nr. 63/1993. Niðurstaða úrskurðar skipulagsstjóra ríkisins frá 15. jan. 1999 og síðar umhvrh. frá 27. apríl 1999, fól í sér að vikurnám á framangreindum svæðum er háð frekara mati á umhverfisáhrifum. Frekara mat hefur ekki farið fram eins og hv. fyrirspyrjandi taldi upp í fyrirspurninni.

Í fjórða lagi er spurt: ,,Verður frekari starfsemi leyfð á námusvæðunum við Jökulinn án undangengins umhverfismats?``

Því er til að svara að vikurnám á því svæði og í því magni sem framangreint mat á umhverfisáhrifum tók til er háð niðurstöðu frekara mats á umhverfisáhrifum. Sé vikurnám fyrirhugað á öðrum svæðum en í minna magni er rétt að benda á að skv. 21. lið í 1. viðauka gildandi laga um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000, er efnistaka matsskyld ef hún raskar 50.000 m2 svæði eða meira, eða er 150.000 m3 eða meira, eða ef fleiri en einn efnistökustaður ná yfir 50.000 m2 svæði eða stærra. Einnig er bent á að skv. 2. lið a í 2. viðauka sömu laga er efnistaka tilkynningarskyld til Skipulagsstofnunar til ákvörðunar um matsskyldu, ef áformað er að raska 25 þús. m2 svæði eða stærra, eða er 50 þús. m3 eða meiri, eða ef fleiri eða einn efnistökustaður nái yfir 25 þús. m2 eða stærra svæði, eða ef efnistaka er á verndarvæði.

Samkvæmt 27. gr. skipulags- og byggingarlaga, nr. 73/1997, með síðari breytingum, sbr. og 2. mgr. 47. gr. laga nr. 44/1999, um náttúruvernd, er öll efnistaka háð framkvæmdaleyfi viðkomandi sveitarstjórnar. Óheimilt er að gefa út leyfi fyrir framkvæmdum sem tilgreindar eru í 1. eða 2. viðauka laga nr. 106/2000, nema fyrir liggi úrskurður um mat á umhverfisáhrifum, eða eftir atvikum ákvörðun um að framkvæmd sé ekki matsskyld, sbr. 16. gr. sömu laga.

Í fimmta lagi, hæstv. forseti, er spurt: ,,Hefur fyrirhuguð stofnun þjóðgarðs áhrif á meðferð ráðuneytisins á leyfum til námuvinnslu við jaðra svæðisins?``

Það skal tekið fram aftur að umhvrn. veitir ekki leyfi til námuvinnslu. Námuleyfisútgefandi er iðnrn. sbr. lög nr. 57/1998, um rannsóknir og nýtingu á auðlindum úr jörðu og lögum, nr. 73/1990, um eignarrétt íslenska ríkisins á auðlindum hafsbotnsins. Það getur hins vegar ekki gefið út leyfið fyrir matsskyldri framkvæmd og starfsemi er henni fylgir fyrr en úrskurður um mat á umhverfisáhrifum liggur fyrir og skal leyfisveitandi taka tillit til hans. Því er ekki útilokað að námuvinnsla við þjóðgarða almennt geti haft áhrif á niðurstöðu mats á umhverfisáhrifum og þar með leyfi til námuvinnslu þegar um slíkt er að ræða.

En samkvæmt upplýsingum mínum þá er ekkert sem bendir til þess að von sé á slíkum leyfum varðandi vikurnám á Snæfellsnesi.