Viðbrögð við skýrslum Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar

Miðvikudaginn 28. mars 2001, kl. 15:07:49 (6114)

2001-03-28 15:07:49# 126. lþ. 101.9 fundur 578. mál: #A viðbrögð við skýrslum Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., Fyrirspyrjandi KF
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 126. lþ.

[15:07]

Fyrirspyrjandi (Katrín Fjeldsted):

Herra forseti. Fjölþjóðleg sérfræðinganefnd á vegum Sameinuðu þjóðanna hefur nýlega skilað þriðju og næstsíðustu skýrslu sinni um loftslagsbreytingar í heiminum. Hin fyrsta var birt í janúar 2001, en þar var staðhæft að andrúmsloftið hlýnaði meira og örar en menn hefðu hingað til talið og að talsverðu leyti af mannavöldum.

Önnur skýrslan birtist í febrúar á þessu ári. Þar kom fram að ef ekki tækist að snúa þróuninni við á allra næstu áratugum og draga verulega úr hækkandi hitastigi andrúmsloftsins mætti búast við náttúruhamförum svo sem stórfelldum flóðum og í kjölfar þeirra hungursneyð, skæðum farsóttum og félagslegu öngþveiti meðal hinna ýmsu þjóða heimsins.

Helsta niðurstaða nýjustu skýrslunnar er sú að hægt sé að snúa þróuninni við og stöðva hlýnun andrúmsloftsins ef rétt er að verki staðið. Því vil ég spyrja hæstv. umhvrh. um viðbrögð við þessum skýrslum Sameinuðu þjóðanna. Fyrirspurnin er í þremur liðum:

1. Hafa skýrslur fjölþjóðlegrar sérfræðinganefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar verið til umfjöllunar í umhverfisráðuneytinu?

2. Hyggst ráðherra bregðast við niðurstöðum þeirra með sýnilegum hætti?

3. Munu niðurstöður nefndarinnar hafa áhrif á umhverfisstefnu ríkisstjórnarinnar, t.d. á þann hátt að farið verði að virkja vind- og sólarorku í auknum mæli hér á landi?