Einkaframkvæmd í öldrunarþjónustu (Sóltúnsheimilið)

Miðvikudaginn 28. mars 2001, kl. 15:45:56 (6127)

2001-03-28 15:45:56# 126. lþ. 101.94 fundur 434#B einkaframkvæmd í öldrunarþjónustu (Sóltúnsheimilið)# (umræður utan dagskrár), fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 126. lþ.

[15:45]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Það er ótrúlegt að hlusta á málflutninginn sem hér er reiddur fram af framsögumanni og t.d. hv. síðasta ræðumanni. Það er ekki sanngjarnt að bera þetta heimili saman við almenn hjúkrunarheimili. Það er kjarni málsins. Ríkissjóður er ekki að fara illa með fjármagn í þessum samningi. Ríkissjóður er að spara sér peninga, þá peninga sem það kostar að láta aldraða sjúka liggja inni á sjúkrahúsunum. Það kostar 20.000--30.000 kr. á dag þar sem dýrast er. Um það snýst málið.

Ef menn lesa þessa skýrslu komast þeir að því að Ríkisendurskoðun er sátt við svo til allt sem gert hefur verið í þessu máli, og telur það jákvætt. Settir eru skýrir skilmálar og skýr markmið í málinu. Gerður er skýr samningur og settar eru tryggingar og miklar kröfur á hendur fyrirtækinu sem tekur þetta að sér. En hv. þm. Ögmundur Jónasson er bara á móti því að taka í þágu almennings eitthvað sem byrjar á orðinu ,,einka``, hvort sem það er í atvinnurekstri eða í almannaþjónustu. Það bara má ekki ef eitthvað byrjar á því orði, eins og allir hér vita náttúrlega. Svo er verið að gera mál úr því að ekki hafi verið útboð eftir að fyrra tímabilinu lauk, eftir að báðum tilboðunum hafði verið hafnað. Halda menn að hv. þm. Ögmundur Jónasson hefði verið eitthvað hlynntari málinu ef annað útboð hefði verið í sambandi við þetta? Að sjálfsögðu ekki.

Kjarni málsins er sá að hér er verið að leita nýjunga í slíkum rekstri. Verið er að fitja upp á nýmæli í þessum rekstri. Það er ekki víst að allt heppnist fullkomlega, en ég tel að þessi skýrsla sé hins vegar til marks um það að eðlilega hefur verið að þessu máli staðið. Það hefur verið staðið eðlilega að þessu máli. Og þegar menn taka dæmið í heild sinni, bera saman kostnaðinn á sjúkrahúsunum, þá sjá menn að þetta er hagstætt fyrir ríkissjóð.

Síðan eru menn að tala um að fyrirtækið muni hafa svo mikinn arð af þessu. Fyrirtækið leggur að mig minnir 20 millj. kr. fram í eigið fé. Ef menn gera eðlilegar arðsemiskröfu, 10% eða eitthvað því um líkt, hvað er það þá mikið? 2 millj. á ári? Hvað er það í þessum stóra potti, hv. þm.?