Einkaframkvæmd í öldrunarþjónustu (Sóltúnsheimilið)

Miðvikudaginn 28. mars 2001, kl. 15:48:16 (6128)

2001-03-28 15:48:16# 126. lþ. 101.94 fundur 434#B einkaframkvæmd í öldrunarþjónustu (Sóltúnsheimilið)# (umræður utan dagskrár), ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 126. lþ.

[15:48]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Við höfum haft mismunandi rekstrarform og þjónustu innan heilbrigðisþjónustunnar. En fram til þessa höfum við verið sammála um að heilbrigðisþjónustan ætti ekki að skila arði. Samningurinn við Öldung hf. hefur verið réttlættur með því að meiri hjúkrunarþyngd verði í Sóltúni en á öðrum hjúkrunarheimilum. Þangað sé ætlunin að senda aldraða sem útskrifast af sjúkrahúsum, veikustu einstaklingana.

Samkvæmt lýsingu á heimasíðu Öldungs hf. á fyrirhugaðri hjúkrunarþjónustu verða vistmenn hjúkrunarheimilisins með mjög blandaða hjúkrunar- og þjónustuþörf, bæði þunga hjúkrunarsjúklinga og einnig er fyrirhugað veita nokkuð sjálfbjarga einstaklingum góða aðhlynningu. Þetta gæti eins verið lýsing á þjónustu þeirra hjúkrunarheimila sem starfrækt eru í dag og er ekkert sem bendir til þess að starfsemi þeirra muni breytast að ráði þar sem eftirspurn eftir hjúkrunarheimilum fyrir aldraða er mun meiri en sem nemur væntanlegri þjónustu Sóltúns.

Herra forseti. Við samanburð á kostnaði við hvern legudag verður að bera saman sambærilega hjúkrunarþyngd. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar er það gert og þá kemur fram að greiðsla til Öldungs hf. er a.m.k. 14% hærri en til annarra hjúkrunarheimila. Ef húsnæðiskostnaðurinn væri ekki jafnaður út, er einkaframkvæmdin 17% dýrari. Samanburði Ríkisendurskoðunar er í ýmsu ábótavant. En það er ljóst að Öldungur hf. nýtur ýmissa fríðinda umfram aðra aðila sem reka hjúkrunarheimili svo eitthvað sé nefnt.

Af skýrslu Ríkisendurskoðunar má sjá að þessi leið einkaframkvæmdar, að gera aldraða að arðbærri fjárfestingu fyrir einkaaðila, er mun dýrari en önnur hefðbundnari rekstrarform öldrunarþjónustu og því aukinn kostnaður fyrir skattgreiðendur.