Einkaframkvæmd í öldrunarþjónustu (Sóltúnsheimilið)

Miðvikudaginn 28. mars 2001, kl. 15:52:33 (6130)

2001-03-28 15:52:33# 126. lþ. 101.94 fundur 434#B einkaframkvæmd í öldrunarþjónustu (Sóltúnsheimilið)# (umræður utan dagskrár), BH
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 126. lþ.

[15:52]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar um Sóltúnsheimilið kemur fram að samanburður á heildarútgjöldum fimm hjúkrunarheimila á árinu 1999 við umsamið daggjald er 17% hærra á Sóltúnsheimilinu en hinum. Sóltúnsheimilið hefur þá sérstöðu að vera rekið í hagnaðarskyni á meðan önnur heimili eru rekin í öðrum tilgangi, svo sem á grundvelli mannúðarsjónarmiða.

Í ljósi þeirrar stefnubreytingar sem samningurinn felur í sér af hálfu heilbrigðisyfirvalda, hljótum við því að spyrja, herra forseti. Hvert stefnir ríkisstjórnin í þessum efnum?

Og í ljósi þeirra upplýsinga sem skýrslan gefur um að mun hærra gjald sé greitt til Sóltúns en annarra heimila, er nauðsynlegt að spyrja hæstv. heilbrrh.: Hver er tilgangurinn með því að láta fyrirtækjum, reknum í hagnaðarskyni eftir slíkan rekstur ef ríkið þarf að greiða meira til þeirra en til annarra aðila sem eru í sambærilegri starfsemi?

Herra forseti. Það er skylda stjórnvalda að leitast við að veita góða heilbrigðisþjónustu fyrir sem minnst fé. Skýrslan um Sóltúnsheimilið sýnir að ekki þarf að vera samhengi á milli einkareksturs í heilbrigðiskerfinu og hagræðingar. Þeirri klisju er oft haldið á lofti. Ef ríkisstjórnin ætlar að fara út í frekari einkarekstur í heilbrigðiskerfinu, þá er hún með því að segja að slík þjónusta lúti lögmálum framboðs og eftirspurnar. Vissulega eiga þau lögmál við um einhverja hluta kerfisins, svo sem stoðþjónustu ýmiss konar og hliðarþjónustu, en þegar kemur að grunngildunum, þá er ég þess fullviss að þessi lögmál eiga ekki við.

Ég tel löngu kominn tíma til að skoða þróun heilbrigðiskerfisins í samhengi við útgjöld til málaflokksins og að athuga hvort samhengi sé á milli breytinga á rekstrarformi og útgjalda ríkisins til málaflokksins. Þess vegna munu þingmenn Samfylkingarinnar á morgun leggja fyrir þingið beiðni um skýrslu um umfang, þróun og rekstrarkostnað heilbrigðiskerfisins á síðasta áratug og vonumst við til þess að sú vinna megi skila okkur nær því markmiði að átta okkur betur á samhengi milli þess hvert rekstrarform heilbrigðisstofnana er og þess hver útgjöld ríkisins eru til málaflokksins, allt í þeirri viðleitni að ná tökum á útgjöldum til heilbrigðiskerfisins en veita um leið eins góða þjónustu og völ er á.