Einkaframkvæmd í öldrunarþjónustu (Sóltúnsheimilið)

Miðvikudaginn 28. mars 2001, kl. 15:54:42 (6131)

2001-03-28 15:54:42# 126. lþ. 101.94 fundur 434#B einkaframkvæmd í öldrunarþjónustu (Sóltúnsheimilið)# (umræður utan dagskrár), GHall
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 126. lþ.

[15:54]

Guðmundur Hallvarðsson:

Herra forseti. Segja má að með Sóltúnssamningnum sé þriðji aðili kominn að rekstri öldrunarþjónustu sem með viðskiptalegu hugarfari vegur og metur kostnað þjónustunnar við einstakling sem á hjúkrunarheimili dvelst. Allverulega hærri daggjöld eru en áður hafa þekkst og ráðuneytið nálgast málið frá nýju sjónarhorni. Á sama tíma berjast þau hjúkrunarheimili sem fyrir eru í bökkum eða eru í taprekstri vegna einhliða ákvörðunar heilbrrn. sem lögum samkvæmt á þó að taka þessa ákvörðun í samráði við viðkomandi hjúkrunarheimili. Hin háu daggjöld Sóltúns eru réttlætt vegna væntanlegrar hjúkrunarþyngdar á bilinu 1,05--1,20. En þegar hjúkrunarþyngd viðmiðunarheimila er skoðuð kemur í ljós að hún er 1,09. Þannig að hjúkrunarþyngdin réttlætir ekki þá gjá daggjalda sem hér hefur myndast. Af spítölunum hafa komið og munu koma aldraðir inn á þau hjúkrunarheimili sem fyrir eru. Ég er ekki á móti einkarekstri í heilbrigðisþjónustu. Sóltúnssamningurinn mun verða leiðandi til réttra daggjalda annarra hjúkrunarheimila.

Það er röng fullyrðing Ríkisendurskoðunar að sjálfseignarstofnanir eigi að jafnaði ekki að sýna hagnað af starfsemi sinni. Undir þetta tekur hæstv. heilbrrh. Hvar í lögum er ákvæði að finna fyrir slíkri fullyrðingu? Þetta er mjög alvarlegur misskilningur. Erlendis þykir það eðlilegt að sjálfseignarstofnanir séu með 8--10% í tekjuafgang. Hagnað af Sóltúnssamningnum geta aðilar notað á verðbréfamarkaði eða til kvótakaupa, en sjálfseignarstofnanir eingöngu til enduruppbyggingar starfsemi sinnar. Og það hafa þau gert.

Það er jafnþýðingarmikið fyrir sjálfseignarstofnanir sem fyrirtæki annarra rekstrarforma að skila hagnaði.