Einkaframkvæmd í öldrunarþjónustu (Sóltúnsheimilið)

Miðvikudaginn 28. mars 2001, kl. 15:56:51 (6132)

2001-03-28 15:56:51# 126. lþ. 101.94 fundur 434#B einkaframkvæmd í öldrunarþjónustu (Sóltúnsheimilið)# (umræður utan dagskrár), KolH
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 126. lþ.

[15:56]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Útboð var haldið. Tvö tilboð bárust. Bæði voru metin of há og ákveðið var að hafna þeim báðum af þeim ástæðum. Ganga frekar til samninga við lægstbjóðanda. Og ég spyr: Hvað gerðist í millitíðinni? Setti hæstv. heilbrrh. gamla fólkið á útsölu í millitíðinni? Ríkisendurskoðun segir á bls. 8 í skýrslunni, og má benda hv. þm. Jóni Kristjánssyni og hæstv. fjmrh. á það, en þar segir, með leyfi forseta: ,,... hefði að mati Ríkisendurskoðunar verið eðlilegra að bjóða þjónustuna út á ný.`` Í stað þess að ganga til samninga við lægstbjóðanda. Þetta stendur á bls. 8 í þeirri skýrslu sem hér er til umfjöllunar.

Herra forseti. Hæstv. heilbrrh. gefur þá skýringu að vistmenn þessa væntanlega öldrunarheimilis, Öldungs hf., þurfi meiri þjónustu en veitt er á sambærilegum öldrunarheimilum í dag. Eftir þeim upplýsingum sem ég hef aflað mér koma a.m.k. 60% þeirra vistmanna sem eru á stofnunum sem í skýrslunni eru teknar sem samanburðarstofnanir, af sjúkrastofnunum. Og ég spyr: Hvers vegna er þetta misræmi? Hefur hæstv. ráðherra einhverjar aðrar upplýsingar en okkur almennum þingmönnum standa til boða? Þær verða þá að koma hér fram.

Í þessu sambandi er einnig rétt að ítreka þá staðreynd að samkvæmt samningi við Öldung hf. fær fyrirtækið viðbótargreiðslur úr ríkissjóði ef kostnaður fer fram úr viðmiðunarstuðlum.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort ekki sé verið að mismuna aðilum í sambærilegum rekstri. Það eru engir sambærilegir greiðslustuðlar sem gilda um framlög til þeirra aðila sem annast sambærilega þjónustu í dag.

Einnig kemur fram í skýrslunni að Securitas sem á 85% í Öldungi hf. ætli að kaupa þjónustu af sjálfum sér því á bls. í 9 í skýrslunni stendur að þeir ætli að leita til ýmissa utanaðkomandi aðila. Segir þar, með leyfi forseta: ,,Sumir hverjir eru tilgreindir í tilboði, svo sem Landspítali -- háskólasjúkrahús og Securitas ehf. o.fl.`` Hvar er viðskiptasiðferðið? Það kemur fram í skýrslunni að viðskiptasiðferðið sé á núlli. Ég held að hæstv. heilbrrh. skuldi þingmönnum skýringu á ýmsum hlutum sem koma hér fram.