Þjóðhagsstofnun

Fimmtudaginn 29. mars 2001, kl. 10:45:40 (6143)

2001-03-29 10:45:40# 126. lþ. 102.91 fundur 436#B Þjóðhagsstofnun# (aths. um störf þingsins), MÁ
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 126. lþ.

[10:45]

Mörður Árnason:

Virðulegi forseti. Við þá nýskipan þjóðhagskönnunarmála sem hæstv. forsrh. hefur boðað þarf fleira að koma fram en þegar hefur komið fram í málinu. Það þarf t.d. að koma fram með einhverjum hætti hjá hæstv. forsrh. hver starfsstíll hinna ýmsu stofnana í hans veldi á að vera. Leggist Þjóðhagsstofnun niður vegna þess að þar ráði kaffihúsaspekingar, eins og sagt var á Stöð 2 um daginn, þá þarf að vera ljóst með hvaða starfsstíl Seðlabankinn á að viðhafa í þeim verkefnum sem hann tekur við af Þjóðhagsstofnun. Á hann að geta leyft sér glannaskap? Á hann sem sé að vera sjálfstæður? Á hann að geta sagt sannleikann?

Varðandi þann hluta þessara þjóðhagsskýrslna eða þjóðhagsskýrslurnar sem á að flytja til Hagstofunnar, þá þurfum við líka að vita, og ekki síður Hagstofan, hvað hún getur leyft sér í því. Getur hún leyft sér sjálfstæði? Getur hún leyft sér glannaskap í umfjöllun? Getur hún sagt sannleikann? Síðan eru þau erindi sem eiga að fara til Hagfræðistofnunar háskólans. Er þá beðið um glannaskap? Er þá beðið um sjálfstæði? Fær hún að segja sannleikann? Þetta þarf hæstv. forsrh. að upplýsa á þeim tímum þegar bakherbergjanefndir og minnisblaðapólitík er tekin við af þokkalega lýðræðislegum stjórnarháttum í forsrn.