Þjóðhagsstofnun

Fimmtudaginn 29. mars 2001, kl. 10:51:16 (6146)

2001-03-29 10:51:16# 126. lþ. 102.91 fundur 436#B Þjóðhagsstofnun# (aths. um störf þingsins), forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 126. lþ.

[10:51]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Það er rangt að sett hafi verið niður formleg nefnd eins og hér er haldið fram. Það var hins vegar ljóst að allir þeir aðilar sem komu að þeim stofnunum sem í hlut eiga ættu að koma að málinu. Á undanförnu ári hefur ráðuneytisstjórinn í forsrn. rætt þessi mál við alla þessa aðila, ekki einu sinni, ekki tvisvar, heldur oft og þjóðhagstofustjóri hefur meira að segja skilað tillögum sínum varðandi þessi mál. Það er því alveg fráleitt að halda því fram að málið sé ekki rætt málefnalega.

Að auki er það undarlegt fyrir mig að heyra að þjóðhagstofustjóri hafi ekki vitað um málið vegna þess að fram hafa farið viðræður við hann, margar viðræður við hann um hans launakjör og þar er vikið að hans starfslokasamningum. Ég átta mig því ekki alveg á þessari umræðu.

En hvað er Þjóðhagsstofnun? Þjóðhagsstofnun er fyrst og fremst fólk, gott fólk, hæft og gott fólk. Auðvitað er meiningin að nýta starfskrafta þessa fólks. Auðvitað er það meiningin. En það er meiningin að nýta þessa krafta vel og spara um leið, að sameina þau verkefni sem eiga saman hjá Hagstofu og Þjóðhagsstofnun, sameina þau verkefni sem eiga saman hjá Seðlabanka og Þjóðhagsstofnun. Er það ekki meiningin að vera með sæmilega skaplegan ríkisrekstur? Er það ekki lagt til? Hefur ekki Þjóðhagsstofnun lagt það til sjálf? Þetta hefur verið í undirbúningi í heilt ár og hv. þingmenn vita það gjörla. Þess vegna er alveg út í hött að vera með þessar samsæriskenningar sem menn hafa.

Þannig vill til að ég var spurður um þetta atriði sérstaklega í viðtalsþætti. Það er rangt sem hér er haldið fram að ég hafi mætt beint upp í sjónvarp til að tilkynna þetta. Ég var í viðtali um allt aðra hluti þegar fréttamaðurinn spurði um þennan þátt vegna þess að hann bar skynbragð á það sem hv. þingmenn sumir hverjir virðast ekki gera, að tímarnir hafa breyst. Þjóðhagsstofnun er ekki nú um stundir sú eina sem sér um spár. Bankarnir gera það. Undirstofnanir bankanna gera það. Atvinnurekendur gera það. Alþýðusambandið gerir það. Fjmrn. gerir það o.s.frv. Þetta hefur gjörsamlega breyst. Auðvitað eiga menn að laga sig að breyttum tíma en ekki hanga í fortíðinni gjörsamlega eins og menn gera hér og hafa ekkert nýtt fram að færa. Það kom ekki nein ný tillaga, aðeins samsæriskenningar, ekki ein ný tillaga. Það er athyglisvert.