Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 29. mars 2001, kl. 11:30:13 (6150)

2001-03-29 11:30:13# 126. lþ. 102.1 fundur 435#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 126. lþ.

[11:30]

Össur Skarphéðinsson(andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. utanrrh. fyrir skýr svör í þessu efni. Það er alveg ljóst að ráðuneytið hefur haft pata af þessu og hefur fylgst með þessu.

Samkvæmt lausafregnum af málinu hefur þetta mál ekki náð því enn að komast á formlegt viðræðustig milli ríkjanna. Málið er eigi að síður nægilega alvarlegt til þess að lögð hefur verið fram fyrirspurn í danska þinginu og henni var svarað þar í gær. Því miður hef ég ekki enn þá fengið efni þess svars en hvet hæstv. utanrrh. til þess að verða sér úti um það.

Ég óttast það auðvitað, eins og efnahagsástandið er í Rússlandi, að þá geti hvaðeina gerst þar án þess endilega að ríkisstjórnin hafi fulla vitneskju um það. Þess vegna er sá möguleiki uppi að hér geti verið um að ræða einhvers konar samninga milli fyrirtækja sem ekki hafa náð upp á stig milliríkjasamninga eða viðskipta. Ég hvet þess vegna hæstv. utanrrh. til þess að láta ráðuneytið halda vöku sinni og reyndar dreg ekki í efa að svo mun gerast.

Ég er sannfærður um að hér er um ákaflega mikilvæga hagsmuni að ræða fyrir Íslendinga. Það hlýtur að vera eitt mikilvægasta verkefnið á verkefnaskrá sérhverrar íslenskrar ríkisstjórnar að gera allt sem hægt er til þess að bægja mengun frá lífríki norðurhjarans og þar með lífríki Íslands og hafsvæðanna kringum landið, þ.e. ekki bara sökum þeirra efnahagslegu skyldna sem á okkur hvíla heldur höfum við líka skyldum að gegna gagnvart þessu lífríki heimsins sem er eitt hið viðkvæmasta sem um getur.