Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 29. mars 2001, kl. 11:33:09 (6152)

2001-03-29 11:33:09# 126. lþ. 102.1 fundur 435#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), RG
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 126. lþ.

[11:33]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég þakka ágæta yfirferð hæstv. utanrrh. um helstu áherslur utanríkisstefnunnar. Nú kveður við annan tón í ræðu utanrrh. en á síðasta ári. Svo virðist sem viljandi sé horft fram hjá ýmsum stærri málum sem hafa verið í umræðunni á Alþingi, e.t.v. vegna þess að þau hafa fengið ákveðna afgreiðslu eða eru í biðstöðu, a.m.k. er alveg ljóst að þessi ræða er á engan hátt ögrandi fyrir samstarfsflokkinn.

Í þetta sinn er ekki fjallað ítarlega um stöðu Evrópumálanna og öryggis- og varnarmála. Það þýðir samt ekki að þau mál séu ekki ofarlega á baugi því fullyrða má að þróunin í Evrópu á undanförnum mánuðum kalli á mun vandaðri umræðu en hingað til um kosti og galla aðildar að Evrópusambandinu. Á sama hátt er ljóst að hræringar á sviði öryggis- og varnarmála í Evrópu vekja umræðu um hvernig staða Íslands verði tryggð í því sambandi til lengri tíma litið. Allt á hins vegar sinn tíma og sú umræða bíður annarrar skýrslu.

Áður en ég vík frá Evrópuumræðunni sem skautað er fram hjá í þessari ræðu utanrrh. hlýt ég að minna á að hæstv. utanrrh. opnaði sjálfur þá umræðu í skýrslu sinni á síðasta ári. Hann lýsti því yfir að gerð yrði fagleg úttekt á EES-samningnum, haft yrði samráð við ýmsa aðila í þjóðfélaginu sem sett hafa fram skoðun á Evrópumálunum. Fyrir liggur einróma ályktun þings ASÍ um að skoða ESB-málin auk þess sem ýmis samtök atvinnulífsins hafa sett fram skoðun með eða á móti þannig að aðilar vinnumarkaðarins virðast tilbúnir í umræðuna. En nú er ekkert slíkt nefnt.

Hins vegar er sjónum Alþingis beint að alþjóðavæðingunni og vissulega er tímabært að ræða hvaða áhrif svokölluð hnattvæðing hefur eða getur haft fyrir landið okkar. Alþjóðavæðingin er ekki flóðbylgja illra afla þó að á henni séu ýmsar hliðar. Alþjóðavæðingin er samheiti yfir þær framfarir í samgöngum, tækni og viðskiptum sem eru að verða daglegur hluti af lífi okkar flestra.

Íslendingar, hvort heldur er í afskekktri sveit hér innan lands eða á hinum helmingi hnattarins, geta á einfaldan hátt fylgst með beinni útsendingu af þessum þingfundi á tölvuskjánum sínum. Þetta hefði þótt óhugsandi fyrir örfáum árum. En slík tækni er áhrifamikill þáttur upplýsingasamfélagsins. Við getum valið hvernig við nálgumst þessar breytingar, tekið þeim með ólund, ótta og afturhaldi eða með jákvæðu hugarfari, litið á þær sem tækifæri fyrir okkur og freistað þess að gera okkur eins mikinn mat úr þeim og mögulegt er.

Það er líka rangt að hafna alþjóðavæðingunni með því að setja þjóðríkið á stall. Þjóðríkið hefur verið okkur Íslendingum mikils virði og gerði okkur kleift að taka okkar mál í eigin hendur á sínum tíma.

Flest ríki Evrópu eru hins vegar samansett úr fleiri en einni þjóð og því má ekki gleyma að þjóðríkið hefur verið öflugt kúgunartæki í höndum þjóðernismeirihluta í gegnum tíðina. Alþjóðavæðingin gefur okkur færi á að leysa þjóðernisminnihluta úr viðjum kúgunar meiri hlutans í þjóðríkjum um allan heim. Alþjóðavæðingin losar um ofurvald ráðandi afla á upplýsingaflæði og þekkingu og gefur hinum undirokaða fjölda nýja von og nýjan kraft.

Þekking er lykilatriði til að íslensk fyrirtæki geti nýtt sér þau tækifæri sem alþjóðavæðingin býður upp á. Fjarlægðir og búseta fólks skipta minna máli en áður. Þessar aðstæður alþjóðavæðingar kalla hins vegar á að við endurskoðum það hvernig við veitum íslenskum fyrirtækjum aðstoð við markaðssókn á erlendum mörkuðum. Það er sérstaklega mikilvægt ef við getum tengt aðstoð útflutningsráðgjafar við ráðgjöf sem veitt er á byggðaforsendum. Við megum ekki gleyma því að mikilvægt er að styðja við útrás á sem flestum sviðum íslensks atvinnulífs, jafnt á höfuðborgarsvæðinu og úti um land.

Við höfum fjölmargar stofnanir, viðskiptaþjónustu utanrrn., Útflutningsráð, Nýsköpunarsjóð, Iðntæknistofnun og Byggðastofnun, sem allar eiga að aðstoða fyrirtæki en á nokkuð ólíkum forsendum. Spyrja má: Erum við að gera nógu vel í þessu efni? Má ekki hagræða hér, einfalda boðleiðir með aukinni áherslu á atvinnuuppbyggingu á landsbyggðinni sem tengist markaðssókn á erlendum vettvangi? Er ekki kall tímans, herra forseti, að einfalda þessa stofnanauppbyggingu?

Alþjóðavæðingin gerir til okkar kröfur. Hún þýðir ný tækifæri til að mennta sig og til starfa fyrir alla sem geta nýtt sér menntunartækifærin. Við verðum jafnframt að skapa sem bestar aðstæður fyrir þá hópa sem ekki eiga þennan aðgang. Þess vegna kallar alþjóðavæðing á öfluga velferðarstefnu.

Þegar fjallað er um erlendar fjárfestingar í þessari skýrslu er átt við fjárfestingar okkar erlendis. Það er ekki nóg. Við verðum að skapa ramma um erlenda fjárfestingu í tengslum við alþjóðavæðinguna þannig að hún virki í báðar áttir. Í gær benti hagfræðingur Seðlabankans á að lífeyrissjóðir landsmanna væru með 22% af sínu fjármagni á erlendum skuldabréfamörkuðum sem áður var að öllu leyti ávaxtað innan lands. Hann gaf til kynna að ávöxtunin þá hefði verið eins konar tilflutningur milli vasa hjá okkur.

Alþjóðavæðingin og frjálsar fjármagnshreyfingar hafa kallað á breytingar á peningastefnu okkar. Við getum t.d. ekki haft sömu fastgengisstefnu og áður og enduðum núna með eins konar flotgengi og verðbólgumarkmið. Engin þátttaka erlendra aðila er á gjaldeyrismarkaði. Hér starfa tvö til þrjú íslensk gjaldeyrisfyrirtæki, en ef við viljum opinn gjaldeyrismarkað þurfum við erlenda aðila inn. Sama gildir um hlutabréfamarkaðinn. Því er haldið fram að ef við ætlum að fá erlenda aðila hingað þá verðum við að afnema verðtrygginguna og þau ákvæði sem tengjast henni í ársreikningum íslenskra fyrirtækja, svo sem reikningsfærslur sem gera upp verðlagsþróun því þetta þekkist hvergi annars staðar. Útlendingar skilja þetta ekki og hætta sér ekki inn á flókinn markað hérlendis.

Það er líka athyglisvert að aðilar í íslensku atvinnulífi hafa haldið því fram að krónan okkar sé léleg. Spyrja má hvaða áhrif sú umræða hafi á hugsanlega erlenda aðila sem koma vildu á íslenskan gjaldeyrismarkað.

Það sem ég er að draga athyglina að er að við erum með þátttöku í aðra áttina. Við flytjum peningana okkar út en enginn flytur peninga inn. Og ég spyr: Hvað telur utanrrh. að þurfi að gera í þessum efnum?

Hluti af því að opna fyrir fjárfestingar erlendra aðila eru sjávarútvegsfyrirtækin og þegar við fengum aðild að fjármagnsmörkuðum Evrópu gegnum EES-samninginn fengum við undanþágu fyrir sjávarútveginn. Í haust var rædd tillaga frá Samfylkingunni um að heimila erlendum aðilum að fjárfesta í fiskvinnslu. Utanrrh. sem tók þátt í umræðunum taldi að almenn samstaða væri um það mál og ástæða væri til að endurskoða lögin, að það kæmi fyllilega til greina að skylt yrði að landa öllum afla af Íslandsmiðum í íslenskum höfnum. Slíkt hefur verið gert annars staðar, t.d. í Bretlandi, og fengið viðurkenningu Evrópudómstólsins. Ráðherra kom þá inn á misvægið í verðbréfaeign Íslendinga erlendis og verðbréfaeign erlendra aðila hérlendis ásamt vandamálunum sem það skapaði í hagkerfinu. Ekkert bólar hins vegar á úrbótum og ég auglýsi eftir aðgerðum í þessum efnum.

Herra forseti. Jón Sigurðsson forseti sagði í grein um verslunarfrelsi í Nýjum félagsritum árið 1843, með leyfi forseta:

,,En jafnframt og beðið er um verzlunarfrelsi þurfa landsmenn og að leggjast á eitt að afla sér þekkíngar á verzlunar-málefnunum, svo þeir geti vitað hag sinn og fengið skynbragð á að sjá hvað við tekur og hvers þeir þurfa að gæta, því ekki er neinum að vænta að steiktar krásir fljúgi í munn honum sofanda þó verzlanin verði laus. Atorku, sparsemi og kunnáttu þarf allstaðar og á öllum tímum ef vel á að fara, en því framar sem fleiri sækja að og keppast á, og því betur sem þeir eru mentaðir sem við mann keppa.``

Þessi orð eiga jafn vel við sem brýning til Íslendinga um að nýta tækifærin og hvernig skuli nýta þau tækifæri sem felast í frjálsum milliríkjaviðskiptum nú sem og fyrir 160 árum.

Alþjóðasamstarf veitir okkur aðgang að þýðingarmiklum upplýsingum og dýrmæt tækifæri til samstarfs. Ég vil nefna Bellona-verkefnið sem fékk umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs á þinginu í Reykjavík í haust. Það var kynnt í Norræna húsinu nýverið. Þá fengum við að sjá að meðferð kjarnorkuúrgangs í næsta nágrenni Norðurlandanna og gjöfulla fiskimiða er eins og tifandi tímasprengja í okkar umhverfi. Mengun sem kemst í hafið berst með straumum sem þekkja engin landamæri. Þess vegna eigum við að starfa að umbótum með þeim þjóðum sem þurfa á aðstoð að halda. Í næstu viku verða þau mál rædd á þemaráðstefnu Norðurlandaráðs. Okkur ber að tryggja alþjóðlega sáttmála um vistkerfi hafsins og styðja úrbætur í löndunum við Eystrasalt og Barentshaf.

Annað mikilvægt samstarf og nýlegt vil ég nefna. Það eru friðargæslustörfin sem jafnframt eru til skoðunar í Norðurlandaráði. Ég hef lesið tillögur og greinargerð starfshóps utanrrn. um þátttöku Íslands í alþjóðlegri friðargæslu. Þar er margt áhugavert að sjá og settar fram tillögur í átta liðum. Ég spyr hvort búið sé að afgreiða tillögurnar og hvort ríkisstjórnin ætli að hrinda þeim í framkvæmd og veita fjármagn til þessara aðgerða sem þar eru tíundaðar.

Utanrrh. nefnir þróunaraðstoð okkar Íslendinga. Þar höfum við mikið verk að vinna. Við höfum heyrt að alþjóðavæðingin verði fyrst og fremst til að bæta hag þeirra sem vel eru settir fyrir. Það geta verið öfugmæli enda opnar hún tækifæri tækni og þekkingar fyrir hinn dreifða fjölda. En við verðum að gera okkar til að tryggja að hin fátækari ríki fái notið til fulls alþjóðavæðingarinnar og fái sín tækifæri.

Ég vil minna á grein Kofi Annans, aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, í Morgunblaðinu á sunnudaginn. Hann minnti á þá hörmulegu staðreynd að við á Vesturlöndum höfum um áratuga skeið borið höfuðábyrgð á því að hneppa fátækustu ríki þriðja heimsins í fátæktargildru með fráleitum innflutningshömlum og ofurtollum á helstu framleiðsluvörur þróunarríkjanna, landbúnaðarafurðir. Hin iðnvæddu ríki leggja margfalt hærri tolla á landbúnaðarafurðir en á aðrar framleiðsluvörur þriðja heims ríkjanna og gjöldin hækka eftir því sem varan er meira unnin. Þróunarríkin eiga auðveldast með að framleiða landbúnaðarvörur þar sem til þeirrar framleiðslu þarf minnst fjármagn og tækniþekkingu. En við neitum þeim að njóta til fulls þess forskots sem þau eiga á því sviði.

Kofi Annan nefnir dæmi um að innflutningsgjald á fullunnar kjötafurðir til Evrópusambandsins og Japans séu tvöfalt hærri en á óunnar afurðir, m.a. að hráu kaffibaunirnar eru fluttar inn með engum tolli en taka á sig sexfaldan toll ef þær eru brenndar í upprunalandinu.

Grein Kofi Annans var ætluð til birtingar í erlendum fjölmiðlum svo við vorum svo heppin að hann nefndi ekki dæmi úr íslenskum eða norrænum veruleika. Hann nefndi dæmi af Evrópusambandinu en lét þess jafnframt getið að Evrópusambandið hefði tekið stórmannlegt skref við að afnema alla tolla og alla kvóta á allar útflutningsvörur fátækustu ríkja heims aðrar en vopn.

Við Íslendingar viljum eðlilega verja heilbrigði og hollustu íslenskra dýrastofna og ekki er um það deilt að gæta verður ýtrustu varkárni. Hins vegar höfum við verið í fararbroddi í álagningu ofurtolla á afurðir til að skapa innlendri framleiðslu forskot. Við höfum ekki heldur auðveldað öðrum framleiðsluvörum þróunarríkjanna aðgang að íslenskum markaði. Grein aðalframvæmdastjórans er okkur því þörf áminning. Þróunarsamvinna er góðra gjalda verð en engin þróunaraðstoð er mikilvægari en sú að veita fátækum ríkjum möguleika til sjálfsbjargar. Það er jafnaðarstefna í reynd sem sýnir alþjóðavæðinguna í sinni bestu mynd þegar við gerum það.

Það er sjálfsögð krafa, herra forseti, að Ísland tilkynni á ráðstefnu í Brussel eftir tvo mánuði um afnám allra tolla og kvóta á útflutningsvörur fátækustu ríkja heims.