Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 29. mars 2001, kl. 12:16:41 (6160)

2001-03-29 12:16:41# 126. lþ. 102.1 fundur 435#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 126. lþ.

[12:16]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil aðeins koma inn á það sem hv. þm. sagði í sambandi við Írak. Við Íslendingar fögnuðum því mjög mikið þegar Norðmenn tóku að sér að hafa forustu í þeim málum. Þar er sú almenna skoðun ríkjandi að fara þurfi nýjar leiðir í sambandi við viðskiptabannið og ekki hef ég dregið úr því á undanförnum árum því að aðalatriðið er að stöðva það að Saddam Hussein geti smíðað og þróað gereyðingarvopn. Norðmenn eru að vinna að þeim málum og við höfum haft ágætt samstarf við þá. Þetta kostar þá mikið fé. Áætlað er að þeir muni þurfa að leggja í kostnað allt að 350 millj. til að rækja þetta hlutverk sitt.

Þess má geta að í dag standa um 400 milljarðar íslenskra króna ónotaðar á reikningum Sameinuðu þjóðanna samkvæmt ,,olíu fyrir mat`` áætluninni. Þá peninga væri að sjálfsögðu hægt að nota til að kaupa mat, lyf og kennslugögn fyrir íbúa Íraks en því miður hefur Saddam Hussein fremur kosið að halda áróðursstríðinu áfram og virðist kæra sig kollóttan um þjáningar íbúa landsins. Hér er því um mjög vandasamt mál að ræða. Vonandi tekst að finna nýjar aðferðir til að knýjan þennan aðila, Saddam Hussein, til að sinna því fólki betur. Það var aldrei hugmyndin með viðskiptabanninu að beina því gegn saklausum íbúum landsins heldur gegn framleiðslu þeirra gereyðingarvopna sem hann hefur staðið fyrir og eina markmiðið sem menn hafa haft er að stöðva þá framleiðslu.