Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 29. mars 2001, kl. 12:54:52 (6166)

2001-03-29 12:54:52# 126. lþ. 102.1 fundur 435#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 126. lþ.

[12:54]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er ekki mín stefna. Ég tel það ekki til framdráttar íslensku þjóðinni að vera alltaf að leita sér að andstæðingum. Við verðum að leita okkur að bandamönnum. Það vill svo til að Bandaríkjamenn og bandaríska þjóðin hefur verið ágætur bandamaður í þeim stefnumiðum sem við Íslendingar höfum haft í þessu máli. Við höfum unnið mjög vel með þeim. Hins vegar eru ýmsar blikur á lofti að því er varðar afstöðu Bandaríkjanna í þessum málum. Ég harma það. Það verður að sjálfsögðu rætt áfram í þeim hópi sem við höfum unnið í núna á næstunni. Hins vegar hefur komið fram að Bandaríkjamenn vilja áfram leita leiða til þess að draga úr loftslagsmengun í heiminum. Ég er ekki sannfærður um að þeir séu að stíga rétt skref. Þvert á móti.

En okkur hefur gengið vel að vinna að okkar málum í þessu sambandi. Við höfum fengið sérákvæði í gegn af hálfu Íslands, sérákvæði sem hv. þm. hefur barist á móti, sérákvæði sem tryggir að mínu mati mjög hagsmuni Íslendinga til framtíðar. Og sem betur fer höfum aldrei fallist á þá kyrrstöðu sem hv. þm. og ýmsir aðrir þingmenn á Alþingi hafa boðað í þessum efnum, sem hefur verið að afsala sér þessum rétti og koma í veg fyrir að við getum nýtt þá miklu orku sem er hér á landi, þ.e. endurnýjanlega orku. Þetta hefur verið málflutningur hv. þm. Ég hef hlustað á hana skipti eftir skipti hér á Alþingi og ég tel að með þessu hafi hv. þm. verið með þann málflutning að Íslendingar ættu ekki að nýta þessa orku.